Á fyrstu tíu mánuðum þessa árs, frá byrjun janúar og út október, varði Reykjavíkurborg alls 1,5 milljörðum króna til úrræða og þjónustu í málaflokki heimilislausra. Þar af runnu um 500 milljónir króna í rekstur þeirra þriggja gisti- eða neyðarskýla sem rekin eru í borginni.
Á móti þeim útgjöldum koma rúmar 28,5 milljónir króna sem önnur sveitarfélög greiða Reykjavíkurborg fyrir þá íbúa sína sem nýta sér þjónustu gistiskýlanna, en Reykjavíkurborg rukkar um þessar mundir rúmlega 21 þúsund krónur fyrir hverja nótt sem einstaklingar með lögheimili í öðrum sveitarfélögum dvelja í neyðarskýlunum.
Þetta kemur fram svari sem borgin veitti Kjarnanum við fyrirspurn um útlagðan kostnað vegna málaflokks heimilislausra í borginni. Útgjöld borgarinnar til málaflokksins eru annars vegar vegna ólíkra húsnæðisúrræða og hins vegar vegna Vettvangs- og ráðgjafateymis Reykjavíkurborgar, hins svokallaðar VoR-teymis, sem veitir heimilislausu fólki stuðning og ráðgjöf.
Þung staða í neyðarskýlunum í haust
Samkvæmt úttekt sem framkvæmd var af velferðarsviði borgarinnar í október í fyrra taldist 301 einstaklingur heimilislaus í Reykjavíkurborg. Þrjú prósent hópsins, fjórir karlar og fjórar konur, voru ekki með aðgang að húsnæði af einhverju tagi og höfðust við á víðavangi. Fimmtán karlar og sjö konur til viðbótar töldust í ótryggum húsnæðisaðstæðum.
Rúmur helmingur hópsins eða 54 prósent var hins í húsnæði sem skilgreint er fyrir heimilislausa á vegum Reykjavíkurborgar eða á áfangaheimili eða þá í húsnæði með langtímastuðning. Tæpur þriðjungur hópsins, eða 31 prósent, var í neyðargistingu fyrir heimilislausa.
Í haust voru fluttar fréttir af því að þjónustuþörf í málaflokknum hefði aukist mjög á þessu ári og frá því sagði í frétt RÚV að neyðarskýlin þrjú í borginni, gistiskýli karla við Lindargötu og Grandagarð og svo Konukot, væru ítrekað í og yfir hámarksnýtingu, en að í fyrra hefði nýtingin verið á bilinu 60-80 prósent og árið 2020 enn minni, eða á bilinu einn þriðji til helmingur af því sem hann væri nú um stundir.
Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri málaflokks heimilislausra hjá Reykjavíkurborg, sagði við RÚV að um þriðjungur þeirra sem nýttu gistiskýlin væru íbúar annarra sveitarfélaga og að hún og aðrir starfsmenn í málaflokknum finndu ekki fyrir miklum aðgerðum frá öðrum sveitarfélögum eða ríkinu, og söknuðu þess.
„[Þ]að sem við söknum er uppbygging á úrræðum og úthlutun í húsnæði og þjónustu annars staðar. Þannig að fólk velji ekki að fara til okkar, þar sem við erum eina sveitarfélagið með virka þjónustu,“ hafði RÚV eftir Hrafnhildi.
Kópavogsbær búinn að greiða fyrir 772 gistinætur
Kjarninn beindi einnig fyrirspurnum til annarra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins um útlagðan kostnað vegna þessa málaflokks og hafa svör borist nú þegar frá Kópavogsbæ og Hafnarfjarðarbæ.
Í svari frá Kópavogsbæ er þess getið að á fyrstu ellefu mánuðum ársins hafi bærinn greitt Reykjavíkurborg alls rúmar 16 milljónir króna fyrir alls 772 gistinætur heimilislausra íbúa Kópavogs í neyðarskýlum á vegum borgarinnar.
Þetta er nokkur aukning frá því í fyrra, samkvæmt yfirliti sem Kópavogsbær sendi Kjarnanum, en allt síðasta ár rukkaði Reykjavíkurborg Kópavogsbæ um 10 milljónir króna fyrir 527 gistinætur í skýlum á vegum borgarinnar og árið 2020 námu þessar greiðslur Kópavogsbæjar til Reykjavíkur 5,9 milljónum króna fyrir alls 326 gistinætur.
Að auki er velferðarsvið Kópavogsbæjar með þjónustusamning við Samhjálp um rekstur áfangaheimilis við Dalbrekku fyrir 8 karlmenn og er kostnaður bæjarins við rekstur úrræðisins á þessu ári rúmar 32 milljónir króna. Í svari frá bænum segir að félagsráðgjafi frá Kópavogsbæ sé þar með vikulega viðveru, en um er að ræða úrræði fyrir karlmenn sem eru með lögheimili í Kópavogi og eru að ljúka fíknimeðferðum, oft langtímameðferðum, og þurfa að koma undir sig fótunum að nýju.
Hafnarfjörður segir erfitt að segja til um kostnaðinn
Í svari frá Hafnarfirði til Kjarnans segir að það sé „mjög erfitt að segja til um árlegan kostnað Hafnarfjarðarbæjar vegna þjónustu við heimilislaust fólk“.
„Erfitt hefur reynst að festa tölu á fjölda heimilislausra því það leita ekki allir til sveitarfélagsins í erfiðleikum sínum. Einhverjir eru á mánaðarlegri fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu og einhverjir komnir á örorku. Raunhæf heildarmynd í kostnaði kallar á gögn frá mörgum ólíkum aðilum sem vinna þá með sömu skilgreininguna á heimilisleysi. Hafnarfjarðarbær vinnur náið með öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu í þessum málaflokki líkt og svo mörgum öðrum. Markmiðið er ávallt að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og reynt að veita þessum einstaklingum markvissa stuðningsþjónustu til að auka lífsgæði þeirra,“ segir í svari bæjarins.
Í svarinu er einnig bent á að á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) sé starfandi samstarfshópur um málefni heimilislausra og að verkefnastjóri hópsins sé um þessar mundir að vinna að úttekt með sveitarfélögunum um þennan málaflokk.