Skoða þarf útfærslu umfangsminni gatnamóta Sæbrautar og Skeiðarvogs/Kleppsmýrarvegs til samanburðar við þá útfærslu sem sett var fram í matsáætlun vegna fyrirhugaðs Sæbrautarsokks, að mati embættis skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar, sem hefur skilað Skipulagsstofnun umsögn um matsáætlunina.
Í umsögn skipulagsfulltrúa segir að mikilvægt sé að vel takist til með framkvæmd Sæbrautarstokksins, en hnykkt er á því að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sé markmiðið með því að færa akvegi ofan í jörðina það að bæta umhverfisgæði aðliggjandi byggðar og tengja betur saman hverfi sem eru aðskilin með umferðarþungum stofnbrautum – ekki að auka þjónustustig fyrir bílaumferð.
„Sá valkostur um útfærslu, sérstaklega gatnamót Skeiðarvogs og Sæbrautar, sem skilgreindur er í matsáætlun virðist ekki falla vel að þessum markmiðum og mikilvægt er að mótuð verði önnur útfærsla sem verður til samanburðar í umhverfismatinu, þar sem gert er ráð fyrir umfangsminni gatnamótum,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa.
Einnig er vikið að því að mikilvægt sé að „skoða betur valkosti um stokkinn, þ.e. umfang hans og breidd (og mögulega hæðasetningu), út frá mismunandi forsendum, einkum um hönnunarhraða og umferðarmagn“.
Sex akreina Kleppsmýrarvegur?
Í þeirri útfærslu gatnamótanna sem sett var fram í matsáætluninni er gert ráð fyrir ansi mörgum akreinum undir bílaumferð, eins og sjá má þegar rýnt er í skýringarmyndina hér að neðan.
Stokkurinn sjálfur, á Sæbrautinni, verður með tvær akreinar í hvora átt. Þegar komið er upp úr stokknum til norðurs við Kleppsmýrarveg virðist gert ráð fyrir því að vegurinn tvístrist í þrjár akreinar, tvær sem verði beygjuakreinar niður Kleppsmýrarveg og eina beygjuakrein til vinstri þvert yfir gatnamótin og inn á Skeiðarvog.
Gert er ráð fyrir því að Kleppsmýrarvegurinn verði allt að fjórar akreinar í átt að Skeiðarvogi, en ein akreinanna tvístrist niður á Sæbraut til vesturs, ein fari áfram inn Skeiðarvog og tvær beygjuakreinar verði af Kleppsmýrarvegi ofan í Sæbrautarstokkinn til austurs.
Þar sem mest lætur yrði Kleppsmýrarvegur því með sex akreinar í grennd við gatnamótin. Einstaklingur sem myndi vilja fara gangandi eða hjólandi til norðurs meðfram Sæbrautinni yfir Kleppsmýrarveg þyrfti þannig að byrja á því að fara yfir tvöfalda beygjurein, svo tvöfalda akrein umferð undir umferð til austurs, þá þrefalda akrein fyrir umferð til vesturs af Kleppsmýrarvegi og svo að lokum einfalda beygjurein af Kleppsmýrarveginum niður á Sæbrautina. Sjö akreinar í allt.
Gert sé ráð fyrir of mikilli umferðaraukningu þvert á markmið um breyttar ferðavenjur
Í umsögninni frá embætti skipulagsfulltrúa er einnig sett fram gagnrýni á þær forsendur um umferðaraukningu sem stuðst er við í matsáætluninni, sem Verkís var falið að vinna fyrir Vegagerðina og Reykjavíkurborg.
Í matsáætluninni segir að í frumdrögum hönnunar hafi verið miðað við umferð 50 þúsund ökutækja á sólarhring, og það sagt í samræmi við forsendur aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um tveggja prósenta aukningu umferðar á hverju ári næstu 20 árin.
Í umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar er bent á að þessar forsendur séu reyndar ekki til staðar, hvorki í aðalskipulagi borgarinnar til 2030 né því nýja sem gildir til 2040, og því sé ekki skýrt hvaða forsendur séu þarna að baki. Bent er að umferðaraukning af þessari stærðargráðu væri umfram bæði íbúafjölgun og fjölgun starfa.
„Það er mjög umdeilanlegt að gera ráð fyrir slíku, ekki síst í ljósi þess að öll opinber og samþykkt markmið snúa að því að draga úr bílumferð, í það minnsta pr. íbúa og að breyta ferðavenjum til framtíðar litið,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa.
Bent er á að slík markmið megi finna í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, aðalskipulagi Reykjavíkur og stefnuskjölum ríkisvaldsins í loftslagsmálum, auk þess sem þau megi lesa úr samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Leiðrétt: Blaðamaður misritaði Skeiðarvog sem Sogaveg fyrir misgáning á nokkrum stöðum í greininni, í fyrstu útgáfu fréttarinnar.