Stjórnendur greiðslukortafyrirtækisins Borgunar íhuga nú að krefjast þess að rannsakað verði hvernig upplýsingar um úttekt fyrirtækisins af reikningi hjá Sparisjóði Vestmannaeyja rötuðu í fjölmiðla. Þeir telja að mögulega hafi bankaleynd verið rofin með því.
„Þessi leki er þess eðlis að okkur þykir fyllsta ástæða til að hann verði rannsakaður,“ segir Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, í samtali við DV í dag.
Borgun tók út rúmar 200 milljónir króna úr sparisjóðnum í áhlaupi á bankann í mars. Það var um þriðjungur heildarupphæðarinnar sem var tekin út í áhlaupinu, en heildarupphæðin nam um 700 milljónum króna. Fréttir bárust af slæmri stöðu sjóðsins og vísbendingar voru um mikla virðisrýrnun lánasafns sparisjóðsins, sem hefði getað leitt til gjaldþrots. Í kjölfar áhlaupsins tók Landsbankinn Sparisjóð Vestmannaeyja yfir.
Það var Morgunblaðið sem greindi svo fyrst frá úttektum Borgunar, tveimur dögum eftir að yfirtaka landsbankans var heimiluð, og vitnaði til ónafngreindra heimilda. Haukur staðfesti þetta svo við fjölmiðla.
Eins og fram kemur í frétt DV væri rannsókn á þessu máli á hendi Fjármálaeftirlitsins. Stjórnendur fyrirtækisins ætla að fara yfir málið á næstu dögum og ákveða þá væntanlega hvort rannsóknar verður krafist.