Hayat Boumeddiene, mest að leitaða kona Frakklands, er talin hafa flúið til Sýrlands með því að ferðast í gegnum Tyrkland. Þetta staðfestu heimildarmenn innan frönsku lögreglunnar við Le Figaro í gær. Boumeddiene, sem er 26 ára, er grunuð um að vera samverkamaður mannanna þriggja sem stóðu að árásum í París í síðustu viku þar sem 17 manns voru myrtir.
Samkvæmt heimildum Le Monde og The Wall Street Journal, sem sagðar eru komnar innan úr leyniþjónustu Frakklands, á Boumeddiene að hafa farið til Spánar og flogið frá Madríd til Istanbúl. Þaðan á hún að hafa farið yfir til Sýrlands.
Boumeddiene er vopnuð og hættuleg að sögn frönsku lögreglunnar.
Myndirnar sem lögreglan dreifði af Coulibaly og Boumeddiene þegar leit að þeim hófst.
Mannskæðasta árásin frá 1961
Árásirnar hófust á miðvikudag þegar ráðist var inn í höfuðstöðvar skopmyndaritsins Charlie Hebdo. Þar voru tveir lögreglumenn og tíu starfsmenn blaðsins myrtir. Árásarmennirnir voru tveir bræður, Said Kouachi og Cherif Kouachi. Þeir réðust sérstaklega á blaðið, og ákveðna starfsmenn þess, vegna teikninga sem það hafði birt af Múhammeð spámanni.
Mynd af Coulibaly og Boumeddiene saman.
Á fimmtudag myrti Amedy Coulibaly, sem sagðist vera vitorðsmaður bræðranna, lögreglukonu í París. Talið var að Hayat Boumeddiene hafi verið með honum þegar morðið fór fram en nýjar fréttir segja að hún hafi mögulega þegar verið komin til Tyrklands þegar árásirnar fóru fram.
Bræðurnir voru báðir drepnir í áhlaupi lögreglu síðdegis á föstudag. Þeir höfðu þá tekið gísl og héldust við í lítilli prentsmiðju rétt utan Parísar. Samtímis var ráðist inn í verslun í austurhluta Parísar, sem rekin er af gyðingum, þar sem önnur gíslataka var í gangi. Þar hafði Amedy Coulibaly tekið minnst sex gísla. Coulibaly hafði hótað að myrða gísla sína ef reynt yrði að handsama Kouachi bræður. Coulibaly var drepinn í áhlaupi lögreglu en hann hafði áður drepið fjóra gísla. Boumeddiene er enn leitað.
Árásin er mannskæðasta hryðjuverkaárás sem átt hefur sér stað í Frakklandi frá árinu 1961, en þá stóð Alsírska stríðið yfir.
Sögðu að Al Kaída í Jemen hefði sent þá
Franska sjónvarpsstöðin BFMTV náði tali við Cherif Kouachi í síma á meðan að hann og bróðir hans héldu manni í gíslingu í lítilli prentsmiðju skammt frá París. Fréttamaður stöðvarinnar, Igor Sahiri, ræddi við Kouachi á föstudagsmorgun. Í samtalinu segir Cherif Kouachi að bræðurnir séu verndarar spámannsins Múhammeðs og að AL Kaída í Jemen hefði sent þá.
Fréttastöðin ræddi líka við Coulibaly skömmu áður en hann var drepinn. Hann sagði meðal annars að hann og Kouachi bræðurnir hefði „samstillt“ aðgerðir sínar.