Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Edson Arantes do Nascimento, betur þekktur sem Pelé, var í dag færður á gjörgæsludeild sjúkrahúss í Sao Paulo, en hann var lagður inn á sjúkrahúsið fyrir þremur dögum vegna þvagfærasýkingar. Heilsu hans hefur hrakað mikið síðan, og því var hann færður til sérstakrar aðhlynningar á gjörgæslu. Fréttastofa AFP greinir frá málinu.
Pelé gekkst undir aðgerð fyrir tæpum tveimur vikum, þegar nýrnasteinar voru fjarlægðir úr honum, en hann er 74 ára gamall. Hann var útskrifaður tveimur dögum síðar. Að sögn læknis, á The Albert Einstein heilbrigðisstofnuninni í Brasilíu, er ástand knattspyrnugoðsagnarinnar stöðugt. Honum eru nú gefin sýklalyf í æð. „Til að veita honum bestu mögulegu meðhöndlun, var tekin ákvörðun um að færa hann yfir á gjörgæsludeild“ er haft eftir lækninum. Engar upplýsingar fást uppgefnar um hvenær Pele verður mögulega útskrifaður af sjúkrahúsinu.
Pele er af mörgum talinn einn besti knattspyrnumaður heims fyrr og síðar, fyrir afrek sín með brasilíska landsliðinu, sem og knattspyrnuferil sinn þar sem hann skoraði hátt í þrettán hundruð mörk í tæplega fjórtán hundruð leikjum. Hann skoraði 77 mörk í 91 leik fyrir brasilíska landsliðið og varð heimsmeistari með liðinu í fyrsta skiptið árið 1958, þá sautján ára gamall. Hann skoraði tvívegis í úrslitaleiknum gegn gestgjöfunum Svíum.
ATH! UPPFÆRT kl. 19:26
Eins og kemur fram hér að ofan byggði Kjarninn frétt sína á frétt AFP. Fjölmiðlar segja nú að talsmaður Pelé að ástand knattspyrnuhetjunnar sé ekki eins slæmt og enskumælandi fjölmiðar hafi gefið til kynna. Svo virðist sem að þýðing á heiti sjúkradeildarinnar sem Pelé dvelst nú á, hafi eitthvað misfarist í fjölmiðlum. Það sé alls ekki gjörgæsludeild, heldur sé hann undir sérstakri gæslu á samnefndri deild. Þá er haft eftir talsmanni Pelé að hann hafi fyrst og fremst verið fluttur á sjúkrahús til að forðast ónæði, þar sem afar margir hafi viljað heimsækja knattspyrnugoðsögnina.
Þá hefur fréttastofa Reuters greint frá því að talsmaður sjúkrahússins hafi borið til baka fréttir þess eðlis að Pelé sé á gjörgæslu.