Gengi bréfa í Tryggingamiðstöðinni (TM) lækkaði um 5,81 prósent í dag í alls 187,2 milljóna króna viðskiptum. Alls var veltan í Kauphöllinni í dag 736,6 milljónir króna og því voru viðskipti með bréf í TM fjórðungur allra viðskipta. Bréf í TM lækkuðu mun meira en bréf í öðrum skráðum félögum.
Gengi bréfa í TM, sem var skráð á markað í maí 2013, hefur lækkað töluvert undanfarnar vikur og er nú 20,25 krónur á hlut. Þegar gengið var hæst, í desember 2013, var það 33 krónur á hlut. Síðan þá hefur gengi bréfa í TM því lækkað um tæp 39 prósent. Vert er þó að taka fram að ákveðið var að lækka hlutafé Í TM þann 12. mars síðastliðnum, sem hafði þau áhrif að gengið féll skarpt strax daginn eftir.
Vont veður kostaði rúman hálfan milljarð
TM birti árshlutauppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins eftir lokun markaða síðastliðinn fimmtudag. Það var síðasti viðskiptadagur síðustu viku þar sem lokað var fyrir viðskipti föstudaginn 1. maí.
Uppgjörið olli miklum vonbrigðum á markaði, heildarhagnaður félagsinsvar einungis 72 milljónir króna á ársfjórðungnum eða um tíu prósent af því sem hann var á sama tíma árið áður. Ástæðan er einföld: 542 milljóna króna tap af vátryggingastarfsemi TM. Í tilkynningu til Kauphallar vegna uppgjörsins segir m.a.: „Rúmlega 500 m.kr tap af vátryggingastarfssemi skýrist meðal annars af mikilli aukningu í fjölda eigna- og ökutækjatjóna þar sem slæmt tíðarfar skiptir mestu. Fjórðungurinn hefur verið bæði illviðra- og úrkomusamur með þeim afleiðingum að margföldun hefur orðið í fjölda mála tengdum erfiðum akstursskilyrðum, foki og óveðri. Því til stuðnings má nefna að tjón af völdum foks og óveðurs voru tæplega 300 á fyrsta fjórðungi ársins 2015 en aðeins 2 á sama tíma í fyrra. Afkoma ábyrgðar- og slysatrygginga var einnig neikvæð og undir væntingum. Aðeins tveir greinaflokkar vátrygginga, sjó- og líftryggingar, skila hagnaði. Í ljósi afleitrar afkomu af vátryggingastarfsemi á fjórðungnum er ekki útlit fyrir að markmið um 95% samsett hlutfall í lok árs náist.“
Á móti skiluðu fjárfestingar 872 milljóna króna tekjum. Þær tekjur vógu því að einhverju leyti upp tap félagsins af vátryggingastarfsemi.