Breska ríkisútvarpið BBC mun leggja niður fleiri en þúsund störf í sparnaðarskyni til þess að mæta því að 150 milljónir punda vantar upp á í rekstur fjölmiðilsins fyrir árið 2016-2017. Starfsfólki mun því fækka um meira en fimm prósent fyrir upphaf næsta árs, en nú starfa um 18 þúsund manns hjá stofnuninni.
Þessar 150 milljónir punda sem vantar upp á eru að mestu leyti tilkomnar vegna þess að fleiri heimili en gert hafði verið ráð fyrir borga ekki afnotagjöld. Milljón færri Bretar segjast eiga sjónvarp en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum frá árinu 2011.
Tony Hall, framkvæmdastjóri BBC, tilkynnti starfsfólki þetta á fundi í London í morgun. Hann sagði að nú þegar hefði verið verulega skorið niður í rekstri BBC en að á erfiðum tímum þurfi að leggja áherslu á það sem skiptir virkilega máli - að búa til framúrskarandi efni og dagskrá fyrir alla áhorfendur og áheyrendur. „Mín megintillaga er þessi - áður en við gerum nokkuð annað sem hefur áhrif á þjónustu okkar - þá þurfum við að tryggja að við séum að reka þetta á eins árangursríkan, áhrifaríkan og einfaldan hátt og mögulegt er.“
Gert er ráð fyrir því að 50 milljónir punda sparist með því að fækka stjórnendum og sameina deildir. Sums staðar í stofnuninni eru tíu lög af stjórnendum, en eftir breytingar verða aldrei fleiri en sjö lög stjórnenda. Þetta verður til þess að sérstaklega háttsettir stjórnendur munu koma til með að missa vinnuna.
Þá verða gerðar breytingar á stoðdeildum eins og markaðs- og samskiptadeildum, fjármáladeildum, mannauðsdeildum, tölvu- og lögfræðideildum. Einfalda á þessar deildir og það verður til uppsagna líka.
Hall sagðist gera sér grein fyrir því að þetta yrði mjög erfitt, og að margir myndu nú óttast um stöðu sína. „Þetta eru miklar breytingar og þær munu eiga sér stað nokkuð hratt. En - ég vil að þið vitið það öll að við munum gera þetta almennilega og á sanngarnan hátt.“
Afnotagjöld hafa ekki verið hækkuð undanfarið og kostnaður BBC hefur aukist. Stjórnvöld í Bretlandi hafa uppi áform um að hætta að sekta fólk fyrir að borga ekki afnotagjöld en nota samt þjónustuna. Talið er að það gæti rýrt tekjur stofnunarinnar um 200 milljónir punda til viðbótar.