Barclays og Standard Chartered bankarnir í Bretlandi hafa hafið rannsókn á tengslum sínum við Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, eftir ákærur á hendur háttsettum mönnum innan sambandsins.
Bandaríska alríkislögreglan hefur ákært fjórtán einstaklinga vegna spillingar, mútuþægni og peningaþvættis í tengslum við FIFA. Komið hefur fram hjá lögreglunni að Barclays og Standard Chartered, sem og HSBC bankinn, hafi verið notaðir í peningaþvættið.
Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að bæði Barclays og Standard Chartered hafi hafið rannsóknir á málinu, en aðeins sá síðarnefndi hefur staðfest það. HSBC-bankinn hefur ekki tjáð sig um málið.
Fleiri bankar voru nefndir í 164 blaðsíðna ákæruskjölunum gegn FIFA-mönnunum. Bankarnir eru ekki sakaðir um að hafa gert nokkuð rangt, aðeins notaðir til sönnunar á ólöglegum greiðslum.
BBC segir þó víst að þessir þrír bresku bankar muni allir rannsaka málið vel, ekki síst vegna þess ða bæði HSBC og Standard Chartered hafa á undanförnum árum greitt bandarískum yfirvöldum háar upphæðir vegna þess að þeir hafa leyft peningaþvætti eða greiðslur sem fara framhjá viðskiptaþvingunum sem Bandaríkin hafa sett. Barclays er einnig með langan lista sektargreiðslna sem bankinn þarf að greiða vegna ýmissa mála.