Framtakssjóði Íslands og félagi í eigu Landsbankans hefur borist bindandi tilboð frá breska félaginu RPC Group plc í allt hlutafé í plastframleiðandanum Promens. Tilboðsverðið felur í sér að heildarvirði félagsins sé 61,6 milljarðar króna, 399 milljónir evra, og að virði hlutafjár sé 36,5 milljarðar króna, 236, milljónir evra, sem greiðist í reiðufé við afhendingu, ef hluthafar samþykkja allir tilboð RPC. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Promens.
Promens hefur verið í eigu Framtakssjóðsins, sem á 49,5 prósent hlut, og Landsbankans, sem á 49,91 prósent hlut, síðan árið 2011. Framtakssjóðurinn er að mestu í eigu Landsbankans og lífeyrissjóða landsins.
RPC er líkt og Promens alþjóðlegur framleiðandi plastumbúða fyrir matvælaiðnað, neytenda- og iðnaðarmarkað.
Höftin hindra alþjóðlegan vöxt
Hermann M. Þórisson, stjórnarformaður Promens hf., segir að Promens hafi metnað til að halda áfram uppbyggingu félagsins og færa starfsemi þess inn á nýja alþjóðamarkaði í samstarfi við núverandi og nýja viðskiptavini. „Í því haftaumhverfi sem nú ríkir á Íslandi er vandasamt að fjármagna metnaðarfull markmið um alþjóðlegan vöxt. Ég styð hugsanlegan samruna við RPC og tel að í honum felist gott tækifæri fyrir félagið og starfsmenn þess og hyggst þess vegna mæla með tilboðinu við hluthafana."
Herdís Dröfn Fjeldsted, varaformaður stjórnar Promens og framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins, segist líta tilboðið jákvæðum augum og að hún hyggist mæla með því við stjórn sjóðsins. „Ég tel að rekstur RPC og Promens falli vel saman og að með samruna fyrirtækjanna yrði til sterkt félag sem gæti byggt á þeim trausta grunni og nýtt sér þau vaxtartækifæri sem Promens hefur skapað sér á undanförnum árum."