Forsetar Úkraínu og Rússlands, Petro Poroshenko og Vladimír Pútín, munu funda með Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Francois Hollande Frakklandsforseta í Minsk í Hvíta-Rússlandi á miðvikudag. Þetta var ákveðið eftir að fjórmenningarnir áttu símafund sín á milli fyrr í dag.
Minsk hefur ákveðna merkingu í tengslum við borgarastríðið í Úkraínu, en þar náðist samkomulag um vopnahlé í september. Vopnahléið hélt þó ekki og átök hófust á ný mjög skömmu eftir það, en Poroshenko hefur sagt að nýtt vopnahlé þurfi að byggja á skilmálum þess sem var samþykkt í Minsk.
Samkvæmt talsmanni þýsku ríkisstjórnarinnar, Steffen Seibert, ræddu leiðtogarnir ýmsar tillögur til að reyna að ná alhliða lausn á stríðinu í austurhluta Úkraínu á fundi sínum í dag. Ekki hefur verið greint ítarlega frá því í hverju friðarumleitanir Frakka og Þjóðverja felast, en Hollande Frakklandsforseti hefur þó sagt að tillögurnar miði við að 50 til 70 kílómetra hlutlaust svæði verði meðfram svæðinu þar sem barist hefur verið.
Merkel og Hollande hafa tekið að sér að reyna að ná fram frið í Úkraínu fyrir hönd Vesturlanda. Merkel sagði í gær að það væri ekki víst að þeim tækist ætlunarverkið, en hún sagðist telja það þess virði að reyna.
Málið hefur verið í aðalhlutverki á öryggisráðstefnunni í Munchen, sem lýkur í dag. Í morgun talaði John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um málið. Bandaríkjamenn íhuga að veita stjórnvöldum í Úkraínu hernaðarlega aðstoð, og sömu sögu hefur Atlantshafsbandalagið. Veiting hernaðaraðstoðar er mjög umdeild meðal leiðtoga Vesturlandanna, og Merkel sagði síðast í gær að hún væri mjög andsnúin þeirri hugmynd. Fleiri vopn myndu bara gera ástandið verra.
Kerry vísaði því þó á bug að það væri missætti milli Vesturlandaríkja, einhugur ríkti um að ná friðsamlegri lausn á deilunni.
Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, gæti þó hafa hleypt olíu á eld Rússa með ummælum sínum í morgun. Í viðtali við Sky News sagði hann að Vladimír Pútín hagi sér eins og einræðisherra á miðri 20. öldinni. „Þessi maður hefur sent hermenn yfir alþjóðleg landamæri og hernumið svæði sem tilheyrir öðru ríki, á 21. öldinni, hagandi sér eins og einhver einræðisherra á miðri 20. öld. Siðaðar þjóðir haga sér ekki þannig. Við sjáum enga ástæðu til að umbera svona svívirðilega og gamaldags hegðun frá Kreml,“ sagði utanríkisráðherrann.