Bresk stjórnvöld hafa að undanförnu þrýst á um að Seðlabanki Íslands og fjármálaráðuneytið veiti undanþágu frá fjármagnshöftum fyrir útgreiðslu gjaldeyris úr slitabúi gamla Landsbankans (LBI) til forgangskröfuhafa. Breski innstæðutryggingasjóðurinn er stærsti forgangskröfuhafi LBI, sem rekja má til Icesave innlánsreikningana, og á eftir að fá greidda um 400 milljarða úr búinu.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Fram kemur að Andrea Leadsdom, undirráðherra fyrir efnhagsmál í breska fjármálaráðuneytinu, hefur á síðustu vikum átt í samskiptum við Bjarna Benediktsson, fjámála- og efnahagsráðherra, vegna málsins.
Fram kom í máli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á kynningarfundi vegna útgáfu Fjármálastöðugleika í gær, að unnið væri að því þessa dagana að skoða greiðslujafnaðarvanda þjóðarbússins heildstætt, og á þeim grunni yrðu teknar ákvarðanir málefni sem snúa að slitabúum föllnu bankanna. Þar á meðal er ákvörðun um hvort fallist verður á beiðni Landsbankans um að lengja í skuldabréfi gagnvart LBI.