Fjármálaeftirlitið mun setja reglur um það hversu hátt veðsetningarhlutfall fasteignalána má vera, eftir að hafa fengið tilmæli um það frá fjármálastöðugleikaráði, samkvæmt frumvarpsdrögum að nýjum lögum um fasteignalán, sem fjármálaráðuneytið birtir í dag.
Verði þetta að lögum mun fjármálaeftirlitið geta sett reglur um að hámark veðsetningarhlutfalls lána nemi frá 60 til 90 prósent, og að hámarkið geti verið mismunandi eftir lánaflokkum og hópum neytenda. Þannig er gert ráð fyrir því að fólki sem er að kaupa sína fyrstu fasteign verði veitt meira svigrúm en öðrum. Mörg Evrópulönd, þar á meðal öll hin Norðurlöndin, hafa þegar sett sér reglur af þessu tagi þótt hámarkið sé ólíkt eftir löndum.
Reglur af þessu tagi eru hugsaðar sem stjórntæki til að koma í veg fyrir bólumyndun á fasteignamarkaði, verja heimili betur fyrir hættu á yfirveðsetningu ef fasteignaverð lækkar og sömuleiðis verja lánastofnanir fyrir tapi ef eignaverð lækkar. Þá á þetta að jafna út útlána- og fasteignasveiflu, að því er fram kemur í greinargerð með frumvarpsdrögunum. Þar kemur einnig fram að staðan í þessum málum á íbúðalánamarkaði sé góð, og veðsetningarhlutfallið hjá lánastofnunum er á bilinu 80 til 90 prósent að hámarki.
Breytingar á greiðslumati og uppgreiðslugjald lækkar
Samkvæmt frumvarpsdrögunum verður reglum um uppgreiðslugjöld líka breytt og þau lækkuð. Nú er það svo að uppgreiðslugjald er að hámarki eitt prósent en samkvæmt frumvarpsdrögunum munu lánastofnanir ekki mega rukka um meira en 0,2 prósent af fjárhæð endurgreiðslu fyrir hvert heilt ár sem eftir er af binditíma vaxta. Þessari breytingu er ætlað að stuðla að því að framboð af lánum með föstum vöxtum aukist. „Tillögð breyting mun leiða til lækkunar á fjárhæð uppgreiðslugjalda fasteignalána með stutt fastvaxtatímabil, s.s. 3-5 ár og vonandi opna fyrir möguleika neytanda til að taka lán með föstum vöxtum til lengri tíma en fimm ára.“
Önnur breyting sem gera á samkvæmt drögunum er að ef lánastofnun ákveður að veita einstaklingum lán þrátt fyrir að niðurstöður úr greiðslumati séu neikvæðar verður stofnunin að útskýra þá ákvörðun og skjalfesta rökstuðning fyrir ákvörðun sinni. Lánastofnunum er heimilt samkvæmt núgildandi lögum að veita fólki fasteignalán þótt niðurstöður greiðslumats séu neikvæðar.