Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra kynnti frumvarpsdrög um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi og álagningu veiðigjalda á fundi með þingmönnum beggja stjórnarflokkanna í gær. Krafist var trúnaðar um innihald frumvarpsins. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag, en RÚV sagði frá málinu í gær.
Jón Gunnarsson.
Frumvarpið er afleiðing af vinnu nefndar á vegum þeirra. Leið nefndarinnar byggist á kvótakerfinu með þeirri breytingu að nýtingasamningar við útgerðarfyrirtæki verði teknir upp í stað þess að aflaheimildum verði úthlutað með þeim hætti sem gert er í dag. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins var ekki sátt í sáttarnefndinni svokölluðu um til hversu margra ára nýtingarsamningar ættu að ná en rifjað er upp að Sigurður Ingi hafi sagt á aðalfundi LÍÚ í fyrra að til að skapa nauðsynlega festu væri eðlilegt að útgerðir fengju rétt til 20-25 ára, með skýrum framleningarákvæðum.
Í Morgunblaðinu er rætt við Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar Alþingis. Þar segir hann að það verði að búa til rekstrarumhverfi fyrir sjávarútvegin þannig að bankar og lánastofnanir séu tilbúnar að lána fyrirtækjum í greininni til uppbyggingar. Vinnan er ekki komin það langt að farið sé að ræða upphæð veiðigjalda. Jón lýsir þeirri skoðun sinni að veiðigjöldin megi ekki vera íþyngjandi fyrir sjávarútvegin og að það verði „að leiða fram krafta greinarinnar til að standa að öflugri endurnýjun og fjárfestingum til að fyrirtækin geti staðist alþjóðlega samkeppni með afurðirnar“.