Brynhildur S. Björnsdóttir, gjaldkeri Bjartar framtíðar og varaþingmaður, hefur skilað inn framboði til stjórnarformennsku í flokknum. Brynhildur er þar með fimmti frambjóðandinn í embættið, en áður höfðu þau Guðlaug Kristjánsdóttir, Karólína Helga Símonardóttir, Matthías Freyr Matthíasson og Preben Pétursson boðið sig fram. Framboðsfrestur til embætta rennur út áður en ársfundur flokksins hefst á morgun.
Brynhildur bauð sig einnig fram til stjórnarformanns á aukaársfundi flokksins í janúar síðastliðnum. Þá tapaði hún fyrir Margréti Marteinsdóttur, sem nú lætur af störfum sem stjórnarformaður flokksins eftir sjö mánuði í starfi.
Aðeins einn hefur skilað formlegu framboði til embættis formanns Bjartar framtíðar, en það er Óttarr Proppé. Sem fyrr segir gætu þó bæst við framboð enda rennur framboðsfrestur ekki út fyrr en fundurinn hefst.
Óttar tilkynnti um framboð sitt á Facebook fyrir viku síðan og sagðist þá hafa óbilandi tröllatrú á erindi flokksins. „Það er þörf og eftirspurn eftir frjálslyndu, grænu og mannréttindasinnuðu stjórnmálaafli. Björt framtíð leggur áherslu á pólitíska siðbót og hefur staðfasta sýn á langtímahugsun og það að almannahagsmunir standi framar sérhagsmunum. Ég vil gera mitt í þessari baráttu.“
Áður hafði Guðlaug Kristjánsdóttir, sem er forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, lýst yfir að hún vildi vera í forystu flokksins og bauð sig fram í bæði formannsembættin. Hún hefur nú skilað inn formlegu framboði aðeins í embætti stjórnarformanns.
Öll forysta Bjartar framtíðar, formaður, stjórnarformaður og þingflokksformaður, hefur ákveðið að hætta þeim störfum. Guðmundur Steingrímsson formaður tilkynnti að hann hygðist ekki bjóða sig fram á nýjan leik í ágúst, eftir að gagnrýni á hans störf og flokkinn kom fram. Róbert Marshall þingflokksformaður ákvað á sama tíma að hætta sem þingflokksformaður.