Menningarþátturinn Djöflaeyjan á RÚV hefur verið lagður niður, en í staðinn verður menningarumfjöllun í fréttaskýringa- og þjóðmálaþættinum Kastljósi í vetur. Brynja Þorgeirsdóttir, ritstjóri Djöflaeyjunnar, gengur til liðs við þáttinn og verður ritstjóri menningarefnis í Kastljósi. Annað dagskrárgerðarfólk sem hefur unnið í Djöflaeyjunni mun einnig vinna menningarefni í þáttinn auk þess sem Sigurlaug Margrét Jónasdóttir bætist í hóp þeirra sem vinna menningarefni.
Starfsfólki RÚV hefur verið tilkynnt um þetta, en Kastljós hefst eftir sumarfrí þann 31. ágúst næstkomandi. Fréttatengd viðtöl og fréttaskýringar eiga áfram að vera hryggjarstykkið í þættinum en menningarumfjöllun verður viðbót við það þrjá daga í viku. Markmiðið er sagt að efla Kastljós og auka fjölbreytni þáttarins, auk þess að gera menningarumfjöllun RÚV sýnilegri.
Samstarf milli Kastljóssins og fréttastofu RÚV verður einnig styrkt og fréttamenn á fréttastofunni munu koma að dagskrárgerð í Kastljósi.
Þóra Arnórsdóttir, Helgi Seljan og Helga Arnardóttir halda öll áfram sem fastir umsjónarmenn Kastljóss. Kjarninn hefur áður greint frá því að Baldvin Þór Bergsson fréttamaður hefur verið ráðinn til starfa sem fastur umsjónarmaður, og nú bætist Brynja í þann hóp. Þóra var ráðin ritstjóri Kastljóssins í sumar eftir að Sigmar Guðmundsson ákvað að láta af því starfi, en Sigmar mun stjórna nýjum morgunþætti á Rás 2 í vetur, ásamt Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur.