Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, innanríkisráðherra. Frá þessu segir á vef stjórnarráðsins í dag, en fjölmiðlar höfðu einnig áður greint frá ráðningunni.
Brynjar er lögfræðingur að mennt, en hann lauk embættispróf í lögfræði HÍ 1986 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum árið 1989 og Hæstarétti árið 1998. Hann var fulltrúi yfirborgarfógetans í Reykjavík 1986–1991 og hefur rekið eigin lögmannsstofu síðan 1991. Brynjar var svo einnig formaður Lögmannafélags Íslands 2010–2012.
Þekktastur er hann þó fyrir störf sín á þingi, en þar hafði hann setið óslitið frá því árið 2013 sem alþingismaður Reykjavíkurkjördæma, þar til hann náði ekki inn á þing í kosningunum í september.
Jón Gunnarsson hefur ráðið sér tvo aðstoðarmenn, en í gær var tilkynnt að Hreinn Loftsson, sem áður var aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í dómsmálaráðuneytinu, yrði Jóni til aðstoðar. Nú hefur Brynjar bæst í hópinn.