Brynjar Níelsson alþingismaður tekur ekki undir ásakanir Víglundar Þorsteinssonar um að svikum og blekkingum hafi verið beitt við endurreisn bankakerfisins til að gæta hagsmuna einhverra útlendinga. Brynjar kynnti skýrslu sína um málið á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.
Skýrslan hefur ekki verið birt á vef Alþingis en Brynjar sagði í samtali við Kjarnann búast við því að það yrði gert í hádeginu í dag.
Brynjar segist leggja til að „ákveðnir hlutir verði skoðaðir,“ fyrst og fremst hvað þurfi að laga og hverju þurfi að breyta í lagaumgjörð. Þá leggi hann til að farið verði yfir stærstu ákvarðanir sem teknar voru í kringum endurreisn bankanna, „þar sem verulegir hagsmunir voru undir“ og það skoðað hvort allt hafi verið gert með málefnalegum og sanngjörnum hætti.
Víglundur Þorsteinsson, fyrrum eigandi BM Vallár, segir að stjórnmálamenn, embættismenn í ráðuneytum og Fjármálaeftirlitið (FME) hafi framið stórfelld og margvísleg lögbrot þegar þeir ákváðu að breyta stofnúrskurði eftirlitsins um stofnun nýrra banka á grunni þeirra þriggja sem féllu í október 2008.
Alvarlegar ásakanir Víglundar
Víglundur Þorsteinsson sendi gögn á þingmenn og fjölmiða í janúar sem hann sagði sýna að að stjórnmálamenn, embættismenn í ráðuneytum og Fjármálaeftirlitið (FME) hafi framið stórfelld og margvísleg lögbrot þegar þeir ákváðu að breyta stofnúrskurði eftirlitsins um stofnun nýrra banka á grunni þeirra þriggja sem féllu í október 2008. Víglundur vildi meina að með þessu hafi erlendir „hrægammasjóðir“ átt að hagnast um 300 til 400 milljarða króna á kostnað þjóðarinnar.