Stjórn BSRB harmar neikvæða og villandi umræðu sem hefur verið áberandi í garð opinberra starfsmanna á undanförnum vikum. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórninni. Tekið er fram í ályktuninni að störfum á vegum ríkisins hafi fækkað um meira en 10 prósent frá efnahagshurni. „Þrátt fyrir mikla fækkun starfsfólks hefur stofnunum ríkisins verið gert að halda óbreyttu þjónustustigi,“ segir í ályktunninni.
Minnt er á það í ályktunninni að opinberir starfsmenn hafi staðið vörð um grunnþjónustu í samfélaginu á erfiðum tímum, ekki síst heilbrigðisþjónustu og umönnun ýmis konar.
Ályktunin er fer hér að neðan í heild sinni.
Stjórn BSRB harmar þá neikvæðu og villandi umræðu sem hefur verið áberandi í garð opinberra starfsmanna á undanförnum vikum.
Störfum á vegum ríkisins hefur fækkað um meira en 10% frá efnahagshruni. Þrátt fyrir mikla fækkun starfsfólks hefur stofnunum ríkisins verið gert að halda óbreyttu þjónustustigi. Yfirgnæfandi meirihluti opinberra starfsmanna sinnir grunnstoðum samfélagsins. Þeir veita heilbrigðisþjónustu og umönnun, tryggja öryggi okkar og veita menntun. Það fólk sem í almannaþjónustunni starfar hefur frá efnahagshruni lagt á sig ómælt erfiði til að halda grunnþjónustu landsins gangandi.
Þrátt fyrir það hefur hluti kjörinna fulltrúa reglulega vegið gróflega að starfsheiðri þessa fólks með mjög ósanngjörnum hætti. Ítrekað hafa rangfærslur um réttindi opinberra starfsmanna, kjör þeirra og fjölda verið sett fram sem sannindi. Allt tal um frekari fækkun opinberra starfsmanna myndi aftur á móti kalla á gjörbreytta þjóðfélagsmynd – skert öryggi, lakari menntunarmöguleika og veikara heilbrigðiskerfi.
Stjórn BSRB krefst þess að umræða um rekstur ríkisins og opinbera starfsmenn byggi á staðreyndum en ekki ósönnum fullyrðingum, sem virðast vera settar fram í þeim tilgangi að réttlæta frekari niðurskurð og skerða réttindi opinberra starfsmanna.