Bruggrisinn Anheuser-Busch InBev býr til þrjá af fimm vinsælustu bjórum Bandaríkjanna, Bud Light, Budweiser og Natural Light. Óhætt er að segja að Bandaríkjamenn og ferðamenn sem sækja landið heim drekki mikið af Bud Light. Hann er langvinsælasti bjórinn, sé mið tekið af upplýsingum sem fram koma í skýrslu markaðsrannsóknafyrirtækisins IRi. Árið 2012, sem eru síðustu nákvæmu tölur um markaðinn, seldist Bud Light fyrir 5,9 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 760 milljörðum króna. Það er upphæð sem dugar til þess að standa undir öllum skuldbindingum íslenska ríkisins í næstum eitt og hálft ár að frátöldum um 80 milljarða vaxtakostnaði, sé mið tekið af fjárlögum ársins 2015. Næst vinsælasti bjórinn, Coors Light, seldist fyrir 2,3 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 300 milljörðum króna.
Bjórmarkaðurinn bandaríski er risavaxinn. Íbúar landsins eru tæplega 350 milljónir að tölu og síðan sækja landið heim um 70 milljónir ferðamanna á ári, samkvæmt tölum Alþjóðabankans.
Lista yfir vinsælustu bjórtegundir Bandaríkjanna má sjá hér að neðan.
Mest seldi bjór Bandaríkjanna | Bjórtegund og söluaðili | Sala á ári
(Árið 2012) | Hlutfallsleg breyting milli ára | |
---|---|---|---|---|
1 | Bud Light (Anheuser-Busch InBev ) | $5,9 ma. dala. | + 0.4% | |
2 | Coors Light (Coors Brewing Company) | $2,3 ma. dala. | + 4.4% | |
3 | Budweiser (Anheuser-Busch InBev ) | $2,1 ma. dala. | - 4.8% | |
4 | Miller Light (Miller Brewing Company) | $1,9 ma. dala. | - 0.3% | |
5 | Natural Light (Anheuser-Busch InBev ) | $1,1 ma. dala. | - 3.0% |