Búið að er birta lögmönnum tveggja manna sem hafa verið í haldi frá því um miðjan september í tengslum við rannsókn á hryðjuverkamálinu svokallaða ákæru í málinu. Þeir hafa kynnt umbjóðendum sínum efni ákærunnar og búist er við að málið verði þingfest í næstu viku.
Þetta staðfestir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars mannanna, í samtali við Kjarnann. Hann segir að mennirnir tveir séu ákærðir fyrir brot gegn 100. gr. a. hegningarlaga sem fjallar meðal annars um hryðjuverk.
Þar segir að sá sem hóti því að fremja hryðjuverk skuli sæta refsingu með allt að ævilöngu fangelsi sé brotið framið í þeim tilgangi „að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar.“
Gæsluvarðhald yfir mönnunum átti að renna út í dag og héraðssaksóknari þurfti að birta þeim ákæru til að fá það framlengt. Síðar í dag verður farið fram á að mennirnir tveir sitji áfram í gæsluvarðhaldi í fjórar vikur til viðbótar.
Annar mannanna losnaði úr gæsluvarðhaldi degi áður en hann var handtekinn. Ástæða þess var grunur um vopnalagabrot fyrr á þessu ári.
Stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogi á meðal þeirra sem þeir ræddu
Þann 21. september 2022 handtók sérsveit ríkislögreglustjóra fjóra menn í umfangsmiklum aðgerðum, annars vegar í Holtasmára í Kópavogi og hins vegar í iðnaðarhúsnæði í Mosfellsbæ. Um tíma tóku um 50 lögreglumenn þátt í þeim. Mennirnir fjórir voru grunaðir um að hafa staðið að undirbúningi hryðjuverka. Tveir þeirra, menn á þrítugsaldri, voru síðar úrskurðaðir í gæsluhald og hafa setið í slíku alla tíð síðan. Hinum tveimur var sleppt skömmu eftir handtöku. Rannsókn lögreglu hefur meðal annars snúist um að kanna hvort mennirnir tengist norrænum öfgasamtökum.
Á upplýsingafundi lögreglunnar í september kom fram að árásirnar hefðu meðal annars átt að beinast að Alþingi og lögreglu. Morgunblaðið hafði í kjölfarið eftir heimildarmönnum sínum að mennirnir hefðu sýnt árshátíð lögreglumanna, sem halda átti skömmu eftir að mennirnir voru handteknir, sérstakan áhuga. Í blaðinu kom einnig fram að á meðal þess sem hafi fundist við húsleit lögreglu hafi verið þjóðernisofstækisáróður. Á meðal ætlaðra fyrirmynda mannanna hafi verið Anders Behring Breivik, sem myrti 77 einstaklinga í Osló og Útey árið 2011.
Á RÚV var greint frá því að mennirnir tveir hefðu rætt sín á milli um að fremja fjöldamorð og nefnt lögreglumenn, Alþingi og fleira í því samhengi. Þetta hafi komið fram í síma- og tölvugögnum sem fundist hafi. Á meðal þeirra sem nefndir voru í samtölum mannanna voru Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Píratar, og Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy, fyrrverandi þingmaður Pírata. Allt þetta fólk var boðað til skýrslutöku vegna málsins.
Samkvæmt almennum hegningarlögum á að refsa fyrir hryðjuverk með allt að ævilöngu fangelsi.
Faðir ríkislögreglustjóra sagður hafa selt þeim vopn
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri þurfti að segja sig frá rannsókn málsins eftir að það kom í ljós að faðir hennar, Guðjón Valdimarsson vopnasali, hefði verið nefndur í yfirheyrslum. Það gerði hún að kvöldi dags 28. september. Þann sama dag hafði faðir hennar verið yfirheyrður á heimili sínu og fengið stöðu sakbornings við rannsókn málsins, en hann er grunaður um vopnalagabrot.
Mennirnir tveir sem nú hafa verið ákærðir fyrir hryðjuverk báru við yfirheyrslur að hálfsjálfvirkt skotvopn í þeirra fórum væri fengið frá Guðjóni. Hann neitaði því þegar lögregla spurði hann um það.
Hægt er að lesa umfjöllun Stundarinnar um yfirheyrsluna yfir Guðjóni hér.