Bankasýsla ríkisins sendi í dag yfirlit yfir kaupendur að 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem hefur birt listann á vef stjórnarráðsins. Hann má lesa hér.
Í tilkynningu sem birt var síðdegis í dag segir að Bankasýslan hafi ítrekað í bréfi þá afstöðu sína að hún teldi ekki heimilt að birta þær upplýsingar sem ráðuneytið óskaði eftir. „Aftur á móti er stofnuninni, sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra, skylt að afhenda ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar um úthlutanir til þátttakenda í útboðinu í ljósi stjórnsýslulegrar stöðu og forræðis ráðherrans á sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.“
Í tilkynningunni kemur einnig fram að síðastliðinn föstudag hafi ráðuneytið óskað eftir afstöðu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til þess hvort lagaákvæði um bankaleynd stæðu því í vegi að upplýsingar um kaupendur og um eignarhlut sem hverjum og einum var seldur, yrðu gerðar aðgengilegar almenningi. Ráðuneytinu hafði ekki borist svar frá Seðlabankanum áður en ákvörðun var tekin um að birta listann.