Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fékk í dag afhent lagafrumvarp um breytingar á gjaldeyrislögum, það er lögin sem settu á fjármagnshöft á Íslandi. Heildaráætlun ríkisstjórnarinnar vegna losunar fjármagnshafta var hins vegar ekki kynnt fyrir nefndinni og verður ekki lögð fram í kvöld. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Nefndin var boðuð á fund klukkan fimm síðdegis með litlum fyrirvara. Ríkisstjórn Ísland mun funda í kjölfar þess fundar og boðað hefur verið til þingfundar klukkan 22. Þar stendur til að afgreiða frumvarpið sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk til umfjöllunar fyrr í dag. Ástæða þess að frumvarpið á að afgreiðast á sunnudegi er sú að breytingar á gjaldeyrislögum geta haft mikil áhrif á ýmsa fjármálamarkaði. Því er nauðsynlegt að afgreiða breytingarnar utan opnunartíma markaða.
Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, sagði í samtali við RÚV að frumvarpið sé einn þáttur af mörgum. Ekki sé verið að kynna áætlunina í heild sinni eða afgreiða hana alla í kvöld.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á föstudag áætlun sína um losun hafta fyrir ríkisstjórn og skýrði frá því að fyrstu frumvörpin sem þarf að lögfesta til að sú áætlun geti tekið gildi væru væntanleg. Stefnt er að því að kynna heildaráætlun um losun hafta fyrir almenningi á morgun eða hinn.