Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa fengið kynningu á drögum að skýrslu starfshóps um fjárhagsstöðu RÚV. Starfshópurinn kynnti drögin fyrir ráðherrunum þann 18. september síðastliðinn. Þetta kemur fram í svari frá menntamálaráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans.
Aðstoðarmaður menntamálaráðherra, Sigríður Hallgrímsdóttir, sagði við Kjarnann í gær að ekki væri búið að afhenda skýrsluna ráðherra, eins og Óli Björn Kárason varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins hafði haldið fram í grein í Morgunblaðinu. Hún ítrekar þetta í svari til Kjarnans í dag, að skýrslan sjálf hafi ekki verið afhent, en vinnsla hennar sé á lokametrunum.
Illugi skipaði í vor þriggja manna starfshóp til að skoða og greina rekstur Ríkisútvarpsins frá því að RÚV var gert að opinberu hlutafélagi þann 1. apríl 2007. „Markmiðið er að sú skoðun varpi ljósi á ástæður þess alvarlega rekstrarvanda sem Ríkisútvarpið ohf. glímir nú við,“ sagði í tilkynningu um skipan hópsins. Eyþór Arnalds er formaður hópsins og Guðrún Ögmundsdóttir, starfmaður í fjármálaráðuneytinu, og Svanbjörn Thoroddsen ráðgjafi, sitja líka í honum. Hann átti upphaflega að skila niðurstöðum sínum fyrir 26. júní, en það varð ekki.
Óli Björn sagði í gær að skýrsla starfshópsins væri tilbúin og hefði verið afhent ráðherra fyrir mörgum vikum síðan, en af einhverjum ástæðum ekki verið birt. „Það er sérkennilegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að almenningur fái ekki aðgang að skýrslu um fjárhagslega stöðu fyrirtækisins sem a.m.k. á tyllidögum og í auglýsingum er sagt „okkar allra“ sem með góðu eða illu greiða nefskatt í formi útvarpsgjalds til að standa undir rekstrinum,“ sagði Óli Björn.