Búið var að samþykkja 578 umsóknir að hlutdeildarlán fyrir alls 4,9 milljarða króna um áramótin, þrátt fyrir að einungis hafi verið búið að greiða út 302 lán fyrir 2,5 milljarða króna á þeim tímapunkti. Þetta kemur fram í svari Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) við fyrirspurn Kjarnans. Í upphafi mánaðar voru því næstum jafn margir komnir með samþykkt hlutdeildarlán og tilbúnir að fjárfesta í íbúð og höfðu náð að klára kaup, eftir að hafa fengið hlutdeildarlán.
Í upplýsingum sem Kjarninn fékk frá HMS segir jafnframt að alls hafi 945 umsóknir borist um hlutdeildarlán frá því síðla árs 2020. Þá var úrræðið, sem felur í sér að tekjulágum fyrstu kaupendum er veitt afborganalaust lán úr ríkissjóði fyrir allt að 20-30 prósentum af virði íbúðar, sem síðan er greitt til baka þegar íbúðin er seld. Ríkið gerist þannig meðfjárfestir, en lántaki þarf að reiða fram að minnsta kosti 5 prósent kaupverðsins sjálfur.
578 umsóknir hafa verið samþykktar, sem áður segir, sem þýðir að lánin eru 8,5 milljónir króna að meðaltali. 276 umsækjendur um hlutdeildarlán eru því með vilyrði fyrir láni frá ríkinu, en hafa e.t.v. ekki fundið íbúð til þess að kaupa – eða bíða þess að íbúð sem er í byggingu verði tilbúin. Afar fáar íbúðir sem komið hafa inn á húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum mánuðum hafa verið í þeim verðflokki sem hlutdeildarlánin ná utan um.
Of háar tekjur helsta ástæða synjunar
Í tölunum frá HMS segir að 132 umsóknum hafi hins vegar verið synjað. Í 235 tilfellum var svo ýmist hætt við umsóknina eða gögn vantaði. Samkvæmt upplýsingum frá HMS er helsta ástæðan fyrir synjun umsókna sú að umsækjandinn hafi haft of háar tekjur til að geta fengið hlutdeildarlán.
Hlutdeildarlánin eru samkvæmt reglugerð sem um þau gilda einungis veitt einstaklingum með undir 7,56 milljón króna tekjur á undanförnum 12 mánuðum eða þá hjónum og sambúðarfólki sem hafa samanlegt 10,56 milljóna króna tekjur á sama tímabili. Við leyfilegar hámarkstekjur bætast reyndar 1,56 milljónir króna fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem er á framfæri umsækjanda eða býr á heimilinu.
Tæpar 700 milljónir lánaðar í Reykjavík
Flest hlutdeildarlán af þeim sem eru hafa verið greidd út eru í Reykjavík, samkvæmt nýlegu svari Sigurðar Inga Jóhannessonar innviðaráðherra við þingfyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar þingmanns Pírata.
Alls eru lánin í Reykjavík 80 talsins að andvirði 693,5 milljóna króna. Flest eru þau í póstnúmeri 108 í borginni, eða 35 talsins.
Fram kemur í svari HMS til Kjarnans að rekja megi fjölda lána í því póstnúmeri til nýbygginga við Síðumúla og Grensásveg, sem fóru í sölu á seinasta ári. Ef horft er á póstnúmerin í Reykjavík hafa næstflest hlutdeildarlán verið veitt í 112 Grafarvogi, eða 23 talsins, en undir tíu í öllum öðrum póstnúmerum innan borgarmarkanna.
Þegar horft er til sveitarfélaga, á myndinni hér að ofan, sést að fyrir utan Reykjavíkurborg hafa næstflest lán verið veitt í Reykjanesbæ, eða 65 talsins. Þar hafa tæpar 517 milljónir króna verið greiddar út vegna lánanna. Á Akureyri hafa svo 46 hlutdeildarlán verið greidd út, að andvirði 318 milljóna króna.