Íslenska ríkið hefur komist að samkomulagi við íslensku viðskiptabankana þrjá um aðferðarfræðina sem beita á við útreikninga á virði þeirra húsnæðislána sem á að lækka höfuðstólinn á, samkvæmt leiðréttingaáformum ríkisstjórnarinnar. Þetta staðfestir Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnastjóri leiðréttingarinnar, við Kjarnann og segir að samkomulagið hafi verið gert síðastliðinn föstudag.
Fyrir lá að samkomulagið þyrfti að nást fyrir lok þessa árs. Það hefur nú tekist.
Hvorki á að skapast tap né hagnaður
Niðurfelling á verðtryggðum húsnæðislánum var eitt helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar. Hún á að kosta allt að 80 milljarða króna og í byrjun nóvember gátu þeir sem sóttu um niðurfellingu fengið að vita hvað þeir áttu að fá. Þeir hafa síðan þurft að staðfesta niðurstöðuna.
Tryggvi Þór Herbertsson er verkefnastjóri Leiðréttingarinnar.
Þegar tilkynnt var um hversu mikið hver ætti að fá lá ekki fyrir samkomulag við Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka um hvernig verðtryggð lán í þeirra eigu yrðu niðurfærð. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, fylgdist grannt með þeim viðræðum vegna þess að mjög mismunandi er hvort lánveitendur séu að hagnast niðurgreiðslu ríkissjóðs á höfuðstóli húsnæðislána. Í lögum um lækkum höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána sem samþykkt voru í maí síðastliðnum segir að miða skuli við „að hvorki skapist hagnaður né tap hjá samningsaðila vegna greiðslu ríkissjóðs á leiðréttingahluta láns“.
Viðræðurnar, sem nú er lokið, snérust um að viðskiptabankarnir fái ekki meira til baka af sumum lánum sínum vegna leiðréttingarinnar en þeir gátu vænst ef hún hefði ekki orðið að veruleika. Þeir eiga ekki að„hagnast“ á framkvæmdinni. Samkomulagið á að tryggja að svo sé ekki.