Gréta Björg Egilsdóttir var í gærkvöldi skipuð varamaður Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráð Reykjavíkur. Þetta var gert á borgarstjórnarfundi sem lauk um klukkan hálf eitt í nótt. Hún kemur í stað Gústafs Níelssonar, en hann hafði verið kjörinn sem varamaður á síðasta borgarstjórnarfundi.
Skipan Gústafs var strax harðlega gagnrýnd vegna yfirlýstra skoðana hans á múslimum og samkynhneigðum, sem hann hefur skrifað margar greinar í blöð um. Framsóknarflokkurinn dró skipan hans til baka á hádegi daginn eftir að hún átti sér stað. Í tilkynningu frá borgarstjórnarflokknum kom fram að skipun Gústafs hafi verið mistök. Í fjölmiðlum sögðu borgarfulltrúar Framsóknar að þær hefðu ekki vitað af skoðunum og skrifum Gústafs um samkynhneigða.
Þá höfðu tveir ráðherrar hans, Eygló Harðardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson, gagnrýnt hana opinberlega, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, fundað með borgarfulltrúunum sem skipuðu Gústaf. Hins vegar var ekki hægt að skipa nýjan varamann fyrr en á næsta borgarstjórnarfundi, og hann fór fram í gær.
Daður við öfgastefnu og rasisma
Hefð er fyrir því að samþykkja tilnefningar flokka í ráð. Sú hefð hefur heldur betur raskast vegna Gústafs. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sat hjá þegar kosið var um skipan hans fyrir tveimur vikum og sagði ástæðuna vera sú að hann þekkti til málflutnings Gústafs. Auk Dags sátu borgarfulltrúarnir Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Heiða Björg Hilmisdóttir og Halldór Auðar Svansson hjá við kosningu Gústafs.
Í gær sátu síðan þrír borgarfulltrúar hjá við kosningu á nýjum varamanni Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráð. S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, Sóley Tómasdóttir, Vinstri grænum, og Halldór Auðar Svansson Pírati.
Björn sagði ástæðuna daður Framsóknarflokks og flugvallarvina við öfgastefnu og rasisma. Sóley Tómasdóttir sagði borgarfulltrúunum ekki treystandi til að tilnefna í mannréttindaráð og hún vildi ekki taka ábyrgð á þeirra tilnefningum.