Einstaklingur, sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna innbrotsþjófnaðar erlends tölvuhakkara á heimasíðu Vodafone í nóvember 2013, og í kjölfarið dreifingu þjófsins og annarra á hinum stolnu gögnum, hefur stefnt Fjarskiptum hf., eiganda Vodafone, vegna þessa. Einstaklingurinn vill fá 8,4 milljónir króna í skaða- og miskabætur auk vaxta og málskostnaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu Vodafone til Kauphallar Íslands.
Í tilkynningunni segir að "Fjarskipti hf. mun á næstunni kynna sér rökstuðning fyrir stefnunni og taka afstöðu til hennar fyrir dómi. Í ljósi málavaxta telja Fjarskipti hf. þó verulegan vafa leika á hvort skilyrði bótaskyldu séu fyrir hendi. Fjarskipti hf. álítur jafnframt, telji dómstólar félagið yfirleitt bótaskylt, líklegt að dæmdar fjárhæðir í þessu eða öðrum hliðstæðum málum, sem boðuð hafa verið, hafi í öllu falli óveruleg áhrif á rekstur og efnahag félagsins. Við þetta mat er hliðsjón höfð af óvissu um bótaskyldu sem og dómafordæmum um ákvörðun fjárhæðar miskabóta, umfangi rekstrarins auk þess sem krafan kann að falla undir tryggingaskilmála félagsins. Gerð verður grein fyrir þessari og mögulegum frekari málshöfðunum í skýringum ársfjórðungsuppgjöra eða eftir því sem við getur átt".
Stórtækasta árás í einkalíf Íslendinga frá upphafi
Innbrotið inn á heimasíðu Vodafone, sem er eina fjarskiptafyrirtækið sem er skráð á markað á Íslandi, átti sér stað að morgni 30. nóvember 2013.
Þjófnum tókst að komast yfir um 79 þúsund smáskilaboð sem send höfðu verið af heimasíðu Vodafone á síðustu þremur árum, mikinn fjölda lykilorða viðskiptavina Vodafone að notendasíðum þeirra hjá fyrirtækinu, fjögur kreditkortanúmer og gríðarlegt magn upplýsinga um möfn og kennitölur viðskiptavina. Gögnin birti hann síðan opinberlega. Stuldurinn, og birting gagnanna, er stórtækasta innrás í einkalíf Íslendinga sem nokkru sinni hefur átt sér stað.
Tapaði viðskiptavinum á fyrri hluta síðasta árs
Vodafone tapaði viðskiptavinum í farsímaþjónustu og í nettengingum á fyrri hluta ársins 2013. Þetta kom fram í tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunnar (PFS) um íslenska fjarskiptamarkaðinn sem birt var í október síðastliðnum.
Viðskiptavinum Vodafone í farsímaþjónustu fækkaði um tæplega þúsund á milli ára auk þess sem félagið náði ekki í neinn þeirra níu þúsund viðskiptavina sem bættust við markaðin á milli ára.Vodafnoe missti einnig um 1.800 viðskiptavini sem voru áður með netþjónustu hjá félaginu og náði ekki í neinn þeirra tvö þúsund nýrra viðskiptavina sem fengu sér netþjónustu á tímabilinu.