Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis reiknar með að umboðsmaður Alþingis birti niðurstöðu frumkvæðisathugunar embættisins á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, í fyrramálið.
Fundur hefur verið boðaður hjá nefndinni klukkan átta í fyrramálið, en hann er ekki auglýstur inn á vef Alþingis. Samkvæmt heimildum Kjarnans stóð jafnvel til að kalla stjórnskipunar- og eftirlitsnefndina saman til fundar í kvöld, en af því varð ekki.
Heimildir Kjarnans herma að á fundinum í fyrramálið verði annars vegar niðurstaða umboðsmanns rædd og hins vegar ákveðið með annan fund síðar um daginn. Sá fundur verður mögulega haldinn fyrir hádegi, þar sem Hönnu Birnu verður boðið á nefndarfundinn til að bregðast við niðurstöðu umboðsmanns. Sterklega kemur til greina að síðari fundurinn verði opinn fjölmiðlum, að því er heimildir Kjarnans herma, en einungis þrír nefndarmenn þurfa að sameinast um tillögu þess efnis svo hún nái fram að ganga.
Sá fundur verður auglýstur á vef Alþingis.