Byggðastofnun gerir ráð fyrir að tekjutap sjómanna og landverkafólks vegna innflutningsbanns Rússlands á vörur frá Íslandi geti samtals verið á bilinu 990 milljónir til 2.550 milljónir á heilu ár. Tekjutap sjómanna er áætlað 440 til 1.000 milljónir en talið er að 400 sjómenn verði fyrir tekjutapi. Tekjutap landverkafólks við frystingu er talið geta verið á bilinu frá 860 til 1.870 milljóna króna en talið er að 780 manns verði fyrir tekjutapi.
Frá þessu er greint á vef Skessuhorns og vísar fjölmiðillinn til tilkynningar frá Byggðastofnun. Samtals verða 1.180 sjómenn og landverkafólk fyrir tekjutapi á bilinu 1.300 til 2.900, samkvæmt mati stofnunarinnar, en á móti kemur að vegna aukinnar bræðslu þarf 220 fleiri starfsmenn til starfa í bræðslunum. Laun til þeirra starfsmanna eru áætluð á bilinu frá 310 til 350 milljónir króna.
Það var Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem fól Byggðastofnun að meta áhrif Rússabannsins á byggðalög, í kjölfar setningu viðskiptabanns Rússa á Ísland í fyrri hluta síðasta mánaðar. Bannið hefur mikil áhrif á útgerðir landsins en Rússar hafa verið stærsti kaupandi uppsjávarafla íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.
Tekjutap sveitarsjóða vegna lægri útsvarstekna er áætlað á bilinu 143 til 364 milljónir króna og tekjutap vegna lægri aflagjalda er áætlað allt að 43 milljónir.
Í tilkynningunni frá Byggðastofnun segir að almennt geri fyrirtæki ekki ráð fyrir að segja upp starfsfólki en hins vegar, að óbreyttu, muni ekki koma til ráðninga vegna vaktavinnu við frystingu makríls og loðnu.
Lægri tölur en óttast var í fyrstu
Fjallað er um skýrslu Byggðastofnunar í Morgunblaðinu í dag. Haft er eftir Sigurði Inga að skýrslan sýni lægri tölur en menn hafi óttast í upphafi, en þó sé þetta alvarlegt fyrir þá einstaklinga og byggðalög sem verða fyrir mestum áhrifum af viðskiptabanninu.
Hann segir það ekki hafa verið rætt innan ríkisstjórnarinnar hvort komið verði til móts við þau byggðarlög sem nefnd eru í skýrslunni, en segir sjálfsagt að það verði gert, gangi verstu spárnar eftir.
Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að þau byggðalög sem verða fyrir mestum áhrifum bannsins séu Þórshöfn, Raufarhöfn, Vopnafjörður, Neskaupstaður, Eskifjörður, Fáskrúðsfjörður, Höfn, Vestmannaeyjar, Snæfellsbær og Garður.