Byko, sem í morgun var gert að greiða 650 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna samkeppnislagabrota, telur ákvörðunina vart geta verið lögmæta og hefur þegar tekið ákvörðun um að kæra hana til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Byko.
Þar segir að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins sé í beinni andstöðu við nýfallinn dóm fjölskipaðs Héraðsdóms Reykjaness, þar sem ellefu af tólf sakborningum í sama máli voru sýknaðir. "Dómurinn taldi gögn málsins sýna það með óyggjandi hætti að verðsamkeppni á byggingavörumarkaðnum væri mikil. Orðrétt segir í niðurstöðum dómsins: „Benda öll þessi skilaboð til þess að hið gagnstæða hafi verið, mikil og hörð samkeppni, en ekki verðsamráð“.Vandséð er hvernig hægt er að komast að svo ólíkri niðurstöðu í tveimur málum sem fjalla um sömu málsatvik, þ.e. annars vegar í niðurstöðu fjölskipaðs Héraðsdóms Reykjaness og hins vegar í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins frá í dag.
Málatilbúnaður Samkeppniseftirlitsins byggir öðrum þræði á því að reglulegar verðkannanir í gegnum síma feli í sér ólögmætt samráð. Er þetta í andstöðu við dóm Héraðsdóms Reykjaness þar sem segir orðrétt: „Eru verðkannanir, hvort sem þær eru gerðar af opinberum aðilum, einkaaðilum, viðskiptavinum, eða innan fyrirtækjanna sjálfra, ekki saknæm háttsemi.“ Niðurstaða héraðsdóms var afdráttarlaus. Verðkönnunarsímtölin sem áttu sér stað voru eðlileg og í samræmi við lög.
Byko telur með ólíkindum að stjórnvald líkt og Samkeppniseftirlitið taki ákvörðun sem er í beinni andstöðu við niðurstöðu dómstóla. Getur slík ákvörðun vart verið lögmæt. Hefur Byko þegar tekið ákvörðun um að kæra ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála."
Umfangsmikið ólögmæt samráð að mati eftirlitsins
Samkeppniseftirlitið tilkynnti í morgun að það hafi lagt 650 milljón króna stjórnvaldssekt á Norvik, móðurfélag Byko, fyrir brot gegn samkeppnislögum og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið vegna umfangsmikil ólögmæts samráðs við gömlu Húsasmiðjuna. Í frétt á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins segir: „Samkeppniseftirlitið telur að brot Byko séu mjög alvarleg og hafi verið framin af ásetningi. Þau voru til þess fallin að valda húsbyggjendum og almenningi öllum umtalsverðu tjóni. Nánar er rökstutt í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að hæfileg sekt vegna þessa sé 650 mkr. Til að stuðla m.a. að því að brot af þessu tagi verði ekki framin innan þeirrar samstæðu sem Byko tilheyrir er sektin lögð á móðurfélag Byko, Norvík.“
Í fréttinni segir einnig að brot Byko hafi verið eftirfarandi:
- Reglubundin, yfirleitt vikuleg, samskipti við gömlu Húsasmiðjuna um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á svonefndum grófvörum (grófvörur eru t.d. timbur, steinull og stál).
- Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum.
- Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri (pallaefni) á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð.
- Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að hækka verð á miðstöðvarofnum.
- Að hafa gert sameiginlega tilraun með gömlu Húsasmiðjunni til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Byko að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðnum.
Hægt er að lesa nánari samantekt á brotum Byko hér.