Samkvæmt nýrri könnun MMR er CCP mest spennandi vinnustaður landsins. Könnunin var unnin fyrir Starfsmannafélagið, sem sendir mánaðarlega út sérstakt minnisblað um starfsmannamál, vinnustaði og fréttir af íslenskum vinnustöðum. Hægt er að gerast áskrifandi að minnisblöðum Starfsmannafélagsins hér.
MMR sendi ríflega þrettán hundruð einstaklingum spurninguna: "Hvaða fyrirtæki eða stofnun á Íslandi er að þínu mati mest spennandi vinnustaðurinn?" Engir svarmöguleikar voru í boði fyrirfram, og því var fólki frjálst að skrifa nafn hvaða fyrirtækis sem er. Spurningin var send á fólk á öllu landinu eldra en átján ára í síðasta mánuði.
Samkvæmt niðurstöðunum er CCP mest spennandi vinnustaður landsins, en 15,4 prósent aðspurðra voru á þeirri skoðun. Össur og Íslensk erfðagreining deila öðru sætinu með 5,6 prósent, en þar á eftir koma fyrirtækin Icelandair (4,7%), Marel (4,6%), Landspítalinn (4,3%), Plain Vanilla (4%) og Advania (2,9%). Rúmlega helmingur aðspurðra nefndi önnur fyrirtæki.
Ef aðeins er litið til yngsta aldurshópsins, 18 til 29 ára, trónir CCP á toppnum, Plain Vanilla er í öðru sæti og Landspítalinn í því þriðja. Áhugi yngra fólks á Landspítalanum vekur óneitanlega athygli í ljósi heldur neikvæðrar umræðu um spítalann undanfarin misseri.
Í elsta aldurshópnum, 63 ára og eldri, er Íslensk erfðagreining mest spennandi vinnustaður landsins, en þar á eftir koma fyrirtækin Marel og Össur.