Tölvuleikjafyrirtækið CCP tapaði alls 65,7 milljónum dala, um 8,7 milljörðum króna, á síðasta ári. Það tap bætist við hallarekstur fyrirtækisins á árinu 2013, þegar það tapaði 21,3 milljónum dala, eða 2,4 milljörðum króna. Því nemur samanlagt tap CCP á tveimur árum um ellefu milljörðum króna. Eigin fé fyrirtækisins var neikvætt um síðustu áramót um 15,3 milljónir dala, um tvo milljarða króna. Þetta kemur fram í frétt DV í dag sem byggir á nýjasta ársreikningi CCP sem skilað var inn til fyrirtækjaskráar á þriðjudag.
Helsta ástæða tapsins er gjaldfærður rannsóknar- og þróunarkostnaður. Hann jókst mikið bæði síðustu ár og var til að mynda 11,4 milljarðar króna í fyrra. Árið áður var gjaldfært um 5,5 milljarða króna vegna hans. Kostnaðurinn er bæði tilkomin vegna áframhaldandi þróunar á Eve Online, en einnig vegna kostnaðar sem lagt var út í vegna fyrstu persónuskotleiksins DUST 514 og World of Darkness, sem var blásinn af í fyrra.
Tekjur CCP, sem eru fyrst og fremst til komnar vegna Eve Online leiksins, lækkuðu um rúman milljarð króna í fyrra. Starfsmönnum CCP fækkaði töluvert á síðasta ári, úr 504 í 339. Þar spilar stóra rullu að hætt var við framleiðslu á World of Darkness. Samhliða þeirri ákvörðun voru 56 stöðugildi lögð niður.
Fer CCP úr landi?
Í Fréttablaðinu á miðvikudag var greint frá því að rætt hafi verið um það á síðasta ársfundi CCP að flytja hluta starfsemi fyrirtækisins úr landi. Sé til dæmis í skoðun að flytja höfuðstöðvar þess til annars lands. Fjármagnshöft sem eru við lýði á Íslandi skipta þar miklu og gera það erfiðara fyrir CCP að fá starfsfólk við hæfi og að laða að fjárfesta.
Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, flutti fræga ræðu á Iðnþingi í byrjun mars 2014 sem gaf ýmis vandkvæði sem fylgja rekstri fyrirtækisins á Íslandi til kynna. Þar fór hann meðal annars yfir feril CCP, hinn mikla uppgang sem fyrirtækið hefði gengið í gegnum og hvernig það væri að stýra alþjóðlegu fyrirtæki í höftum og með íslenskri krónu.
Hilmar sagði einnig frá því að tilboðum um að færa CCP til útlanda hefði rignt inn og að erlend sendiráð hérlendis væru mjög dugleg að tala við fyrirtæki sem „vit er í“. Í dag væri staðan þannig að þeir sem næðu árangri á hans vettvangi settu ekki upp fyrirtæki á Íslandi. Hann hefði hins vegar ákveðið að CCP yrði áfram á Íslandi í stað þess að fara til dæmis til Kanada, en þar bauðst CCP að borga enga skatta í fimm ár ef það flytti sig.
Hilmar sagði ástæðu þess að hann hefði ekki flutt fyrirtækið einvörðungu byggða á tilfinningum. Eftir á að hyggja hefði það ekki verið sérstaklega góð ákvörðun. „Það stenst enga skoðun ef maður skoðar staðreyndirnar. Það meikar ekkert sens,“ sagði hann í ræðu sinni.
Kjarninn greindi frá því í apríl í fyrra að erlendir hluthafar CCP hafi verið afar óánægðir með taprekstur fyrirtækisins á árinu 2013 og komið þeim skilaboðum sterkt til skila á aðalfundi síðasta árs. Það hafi búið til nýja samningsstöðu fyrir þá sem vilja flytja höfuðstöðvar CCP burt frá Íslandi. Þegar þeir komu hingað til lands til að vera viðstaddir aðalfund CCP ræddu þeir, og aðrir hluthafar fyrirtækisins, fram og til baka um flutning höfuðstöðva úr landi. Ljóst er að þær viðræður eru fjarri því að vera að deyja út.