Knattspyrnumaðurinn Christiano Ronaldo, sem leikur með Real Madrid á Spáni, gaf umboðsmanni sínum, Jorge Mendes, gríska eyju að gjöf þegar Mendes gekk að eiga heitkonu sína til rúmlega áratugar, Söndru Barbosa, á sunnudag. Eyjan hefur enn ekki fengið nafn en samkvæmt vef BBC hleypur verðmiðinn á henni á milljónum punda.
Ronaldo var í þriðja sæti yfir þá íþróttamenn sem þénuðu mest á 2015-lista Forbes. Árlegar tekjur hans eru þar áætlaðar um 80 milljónir dala, um 10,7 milljarðar króna. Þessi þrítugi knattspyrnusnillingur, sem hefur þrisvar verið valinn besti knattspyrnumaður heims, er líka ríkasti knattspyrnumaður í heimi og eignir hans eru metnar á um 32 milljarða króna.
Mendes hefur verið umboðsmaður um langt skeið og Ronaldo var svaramaður í brúðkaupinu sem fór fram í Porto á Portúgal. Brúðhjónin hafa verið saman í um áratug og eiga þrjú börn. Mendes er sjálfur ekki á flæðiskeri staddur fjárhagslega en hann tekur fyrirtæki sem kallast Gestifute og sér um að þróa og selja efnilega knattspyrnumenn. Auður hans er metinn á tæplega 15 milljarða króna.
Fjöldi grískra eyja hafa verið boðnar til sölu í kjölfar efnahagserfiðleika gríska ríkisins. Á síðunni Private Islands Online segir að hægt sé að kaupa sér eyju við Grikkland á allt niður í um 450 milljónir króna.
Margir heimsþekktir aðilar úr knattspyrnuheiminum voru viðstaddir brúðkaupið. Má þar nefna Sir Alex Ferguson (fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United), Roman Abramovich (eigandi Chelsea), Florentino Perez (forseti Real Madrid) og Luis Filipe Viera (forseti Benfica).