Bandaríski smásölurisinn Costco, sem er þriðja stærsta smásölukeðja í heimi, ætlar að opna verslun í Garðabæ fyrir jólin 2015. Verslunin verður staðsett í 14 þúsund fermetra verslunarhúsnæði við Kauptún sem Costco hefur fest kaup á. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV.
Það spurðist út í júlí að Costco hefði áhuga á að reyna fyrir sér á íslenska smásölumarkaðnum. Í verslunum fyrirtækisins er mikið vöruúrval, allt frá matvöru yfir í dekk og bensín. Síðastliðin sumar kannaði fyrirtækið meðal annars hvort það myndi fá að selja áfengi í búðum og hvort það fengi að flytja inn ferskt kjöt og lyf til að selja í verslun sinni, en allt þetta er harðbannað á Íslandi sem stendur. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sló hugmyndirnar þó ekki út af borðinu þegar hún var innt eftir viðbrögðum.
Val forsvarsmanna Costco um staðsetningu verslunarinnar stóð á milli Korputorgs og Kauptúns.
Í kvöldfréttum RÚV var hins vegar greint frá því að engar slíkar undanþágur hefðu fengist. Það hafi samt ekki gert það að verkum að Costco hafi hætt við. Valið fyrir verslunina hafi staðið á milli Korputorgs og Kauptúns og núverið hafi forsvarsmenn fyrirtækisins tekið ákvörðun um að setja hana upp í Garðabæ.
Í frétt RÚV var rætt við Gunnar Einarsson, bæjarstjóra í Garðabæ, sem sagði að koma Costco hefði mikla þýðingu fyrir bæinn. „En síðast en ekki síst hefur þetta mikla þýðingu fyrir samkeppnina og vöruverð á Íslandi og því fögnum við auðvitað sérstaklega,“ sagði Gunnar.