Daniel Everett Hale, 33 ára gamall fyrrverandi sérfræðingur í bandaríska flughernum, var í gær dæmdur í 45 mánaða fangelsi fyrir að láta blaðamanni í té leynilegar upplýsingar sem vörpuðu ljósi á það hvernig Bandaríkjaher hafði beitt flygildum, drónum, í sprengjuárásum í Mið-Austurlöndum.
Hale var fundinn sekur um að brjóta gegn njósnalöggjöf Bandaríkjanna, Espionage Act, en hann játaði fyrr á árinu að hafa lekið átta leynilegum og þremur háleynilegum skjölum, sem hann taldi eiga erindi við almenning, til blaðamanns. Fyrst eftir að hann var ákærður árið 2019 hafði hann neitað sök og reynt að fá málinu vísað frá með því að færa rök fyrir því að beiting njósnalöggjafarinnar gegn uppljóstrunum eins og honum sjálfum færi gegn málfrelsisákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna.
Það gekk ekki og ákæruvaldið fór fram á Hale yrði dæmdur í allt að 10 ára fangelsi.
Skotmörk dróna lítið hlutfall látinna
Blaðamaðurinn Jeremy Scahill hjá vefritinu Intercept var blaðamaðurinn sem Hale setti sig í samband við. Scahill notaði upplýsingarnar sem Hale fól honum til þess að segja ítarlega frá flygildaárásum Bandaríkjahers í fréttaskýringum á vef Intercept og til þess að rita bók sem kom út árið 2016. Í bókinni ritaði Hale sjálfur einn kafla undir dulnefni til þess að útskýra af hverju hann lak upplýsingunum um drónahernaðinn.
Á meðal þess eldfimasta sem fram kom í skjölunum sem Hale lak til blaðamannsins var það að í flygildisárásum Bandaríkjahers í norðausturhluta Afganistans frá janúar 2012 og fram í febrúar 2013 hefðu fleiri en 200 manns verið drepin. Þar af voru þó einungis 35 einstaklingar sem töldust formlega skotmörk árásanna.
Hin sem létust, stundum konur og börn, voru einfaldlega svo óheppin að vera nærri skotmörkunum þegar bandarískt flygildi, fjarstýrt úr hundruð kílómetra fjarlægð, varpaði sprengjum sínum með banvænum afleiðingum.
Á einu fimm mánaða tímabili í þessari hernaðaraðgerð í Afganistan voru, samkvæmt einu skjalanna, nærri því 90 prósent þeirra sem létust í drónaárásum aðrir einstaklingar en þeir sem árásin beindist gegn. Þessar uppljóstranir vöktu töluverða athygli og umræðu um siðferði þess að nota dróna í hernaði.
Samviskan rak hann til leka
Hale gekk í bandaríska flugherinn er hann var 21 árs gamall. Nokkrum árum síðar, árið 2012, var hann sendur til Afganistan þar sem hann hafði hlutverki að gegna við að staðsetja vígamenn óvinarins, en honum var falið að rekja staðsetningu farsíma þeirra.
Stundum var ákveðið að láta til skara skríða gegn þeim sem Hale átti þátt í að finna. Nýlega skrifaði hann dómaranum í málinu 11 blaðsíðna langt handskrifað bréf, sem bandarískir fjölmiðlar hafa fjallað nokkuð um undanfarna daga, í aðdraganda dómsuppkvaðningarinnar í gær. Bréfið er tilfinningaþrungið, en þar lýsir Hale því hvernig upplifun hans af hlutverki sínu í flughernum í Afganistan varð honum smám saman óbærileg.
Í bréfinu segir Hale meðal annars að hann hafi, allt frá því að hann fylgdist með fyrstu mannskæðu drónaárásinni sem hann átti þátt í, efast um réttlætingu gjörða sinna. Á hverjum einasta degi.
Hann skrifar einnig að þrátt fyrir að ef til vill hafi honum verið heimilt, samkvæmt reglum Bandaríkjahers um valdbeitingu, að taka þátt í að drepa þessa ókunnugu menn á voðalegan hátt, hafi hann velt því fyrir sér hvernig nokkur sæmd gæti falist í því.
„Hvað sem sæmd líður, hvernig mátti það vera að nokkur hugsandi manneskja gæti haldið áfram að trúa því að það væri nauðsynlegt fyrir öryggi Bandaríkjanna að vera í Afganistan og drepa fólk, sem ekki á nokkurn hátt var ábyrgt fyrir árásunum á þjóð okkar þann 11. september. Þrátt fyrir það var ég árið 2012, heilu ári eftir að Osama bin Laden var drepinn í Pakistan, þátttakandi í því að drepa unga villuráfandi menn, sem voru ekkert nema börn þann 11. september,“ skrifaði Hale meðal annars í bréfi sínu.
Eftir að dómur var kveðinn upp í gær sagði Hale að til þess að sinna því starfi að drepa fólk með drónum þyrftu menn á sama tíma að drepa hluta af samvisku sinni.