Árni Stefán Árnason, lögfræðingur með dýrarétt sem sérsvið, var í morgun dæmdur í héraðsdómi Reykjaness til að greiða Ástu Sigurðardóttur 200 þúsund krónur auk vaxta í miskabætur vegna ummæla sem hann lét falla um hana og rekstur hennar í bloggfærslu á vefsvæði DV í október 2013.
Ásta rekur fyrirtækið Hundaræktina ehf., sem elur hunda að Dalsmynni á Kjalarnesi og selur til almennings. Hún er einnig eigandi fyrirtækisins. Þann 8. október 2013 var sýndur þáttur í fréttaskýringarröðinni „Málið“ sem sýnd er á sjónvarpsstöðinni SkjáEinum. Þar var fjallað um starfsemi Ástu að Dalsmynni og meinta illa meðferð dýra sem átti að hafa átt sér stað þar. Árni Stefán var einn viðmælenda sem rætt var við í þættinum.
Bloggfærsla birtist daginn eftir
DV fjallaði um þáttinn í frétt sama dag og vitnaði til ummæla Árna Stefáns um málið. Daginn eftir, þann 9. október 2013, birti hann síðan bloggfærslu á vefnum DV.is undir fyrirsögninni „Dýraníð að Dalsmynni“.
Ásta taldi ýmis ummæli Árna Stefáns vera ærumeiðandi og var afar ósátt við þau. Í dómnum kemur fram að „með bréfi 18. Nóvember 2013 buðu stefnendur honum [Árna Stefáni ]... að ná sátt í málinu með afsökunarbeiðni og greiðslu hóflegra miskabóta að upphæð 1.000.000.kr.“ Boðinu var ekki svarað og því var meiðyrðamál höfðað í janúar 2014. Stefnt var fyrir fjölmörg ummæli og krafðist Ásta tveggja milljóna kr´noa í miskabætur auk greiðslu málskostnaðar.
Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu í morgun að þrenn ummæli skyldu vera dauð og ómerk. Þau eru: „Dýraníð að Dalsmynni“, „ „Rekstraraðilinn Ásta Sigurðardóttir hefur augljóslega einnig gerst brotleg við dýraverndarlög með ýmsum hætti. Við brotum Ástu eins og þau blasa við mér getur refsing varðað allt að tveggja ára fangelsi,“ og „Það á ekki við um Ástu sem hefur eitthvað að fela.“
Árni Stefán þarf að greiða Ástu 200 þúsund krónur í miskabætur og henni og fyrirtæki hennar samtals 400 þúsund krónur í málskostnað. Auk þess var Árna Stefáni gert að birta dóminn, forsendur hans og dómsorð, á bloggsíðu sinni.