Verðtrygging hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár. Sitjandi ríkisstjórn hefur hrint í framkvæmd áætlun sem endurgreiðir þeim hluta þjóðarinnar sem var með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009 allt að 80 milljarða króna vegna verðbólguskots sem átti sér stað á þeim árum.
Ríkisstjórnin skipaði líka starfshóp um afnám verðtryggingar. Meirihluti þess hóps komst að þeirri niðurstöðu fyrir um ári að ekki ætti að banna verðtryggingu. Þrátt fyrir það boðaði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra það í svari við óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í nóvember síðastliðnum að ríkisstjórnin ætli að standa við kosningaloforð Framsóknarflokksins um að afnema verðtryggingu.
Verðbólga hefur hins vegar verið afar lág á Íslandi undanfarin misseri. Alls hefur hún verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sem er 2,5 prósent, í ellefu mánuði samfleytt og mældist einungis eitt prósent í nóvember 2014. Ekki er talið ólíklegt að verðhjöðnunartímabil gæti komið upp hérlendis snemma á þessu ári. Samhliða lækkandi verðbólgu hefur fasteignaverð hækkað mjög skarpt og aukið hreina eign fasteignaeigenda í húsnæði sínu umtalsvert.
Lesandi Kjarnans, sem tók nýtt verðtryggt lán í nóvember síðastliðnum, sendi Kjarnanum skjáskot af greiðsluseðli sem sýnir að höfuðstóll lánsins hefur lækkað frá því að það var tekið.
Bréf lesandans:
„Mér datt í hug að ykkur kynni að þykja forvitnileg dæmisaga sem ég get sagt ykkur af því hvernig verðtryggingin blessaða verkar. Eins og sjá má á skjáskotinu af greiðsluseðli láns sem ég tók í nóvember sl., þá hefur verðtrygging lánsins orðið til þess að LÆKKA höfuðstólinn, ekki hækka hann. Svona getur verðtryggingin semsé verkað í báðar áttir, þ.e.a.s. orðið lántakandanum í hag. Það er náttúrulega nánast einsdæmi í Íslandssögunni að þetta gerist, en þess vegna fannst mér ég mega til með að deila þessu með ykkur.“