Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, er ekki par hrifinn af mörgum þeim fréttum og viðtölum af kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík. Hann segir umfjöllunina vera eins „sena úr Verbúðinni. Bókstaflega“.
Borgarstjórinn greinir frá þessum skoðunum sínum í færslu á Facebook í morgun og lætur henni fylgja tengil á grein sem Þórður Gunnarsson, hagfræðingur og fyrrverandi blaðamaður, ritar. Fyrirsögn greinarinnar er „Verðlagning Vísis í samruna inn í Síldarvinnsluna“ og í henni kemst Þórður að þeirri niðurstöðu að forsvarsmenn Vísis og Síldarvinnslunnar hafi náð „lendingu um verð“ sem bæði taki tillit til rekstrarvirði fyrirtækisins sem sé töluvert lægra en upplausnarvirði aflaheimilda Vísis og verðmætis aflaheimilda. „Ef til vill er hér komin uppskrift að verðlagningu óskráðra sjávarútvegsfyrirtækja í þeirri samrunahrinu sem þarf að eiga sér stað á næstu árum, svo íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geti staðist erlendri samkeppni snúning.“
Dagur er á öðru máli. „Meðfylgjandi greining á kaupverðinu bendir eindregið til þess að kaupverðið taki EKKI mikið mið af rekstri eða rekstrarárangri Vísis heldur skýrist fyrst og fremst af hlutdeild Vísis í þorskkvótanum. Einmitt, kvótanum sem er eða á að heita þjóðareign.“
Hann skrifar að helstu fyrirtæki landsins í sjávarútvegi séu með öðrum orðum „að lýsa því yfir með verðlagningunni að ekkert sé að marka orð og fyrirheit stjórnmálanna um að innheimta eigi eðlilegan arð af auðlindinni þannig að þeir fjármunir renni til þjóðarinnar. Og að engar breytingar á því séu líklegar. Á sama tíma horfum við upp á vanfjármagnað heilbrigðis- og velferðarkerfi án þess að lausnir á því séu í sjónmáli. Er eðlilegt að viðbrögð stjórnmálanna takmarkist við umræðu um kvótaþak og samkeppnissjónarmið? Á þetta bara að vera svona?“
Einn fylgjandi Dags á Facebook skrifar í ummælum við þessa færslu hans að fróðlegt verði að fylgjast með forystu Vinstri grænna í framhaldinu af þessari nýjustu sameiningu í sjávarútvegi.
„Það er sjálfsagt að fylgjast með forystu VG en ég minni á að forysta Framsóknarflokksins boðaði hækkun auðlindagjalda fyrr í vetur, ef mig misminnir ekki. Hvað er að frétta af því? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn neitunarvald í þessum efnum? Eða er ekkert að marka orðin. Í þessu skiptir líka máli að flokkar í stjórnarandstöðu tali skýrt.“