Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að mikið þurfi að gerast innan Samfylkingarinnar til að breyta stöðu flokksins, sem mælist með sögulega lítið fylgi í könnunum. „Þetta er auðvitað ekki staða sem neinn jafnaðarmaður vill sjá,“ sagði Dagur í Vikulokunum á Rás 1 í dag.
Þar var hann spurður um stöðu Árna Páls Árnasonar, formanns flokksins, í ljósi þess að fylgi hans virðist í frjálsu falli og hvort að Árni Páll væri raunverulega rétti maðurinn til að laga stöðuna. Dagur svaraði því ekki afdráttarlaust en sagði að Árni Páll hefði fengið afgerandi kosningu sem formaður árið 2013 þegar hann sigraði Guðbjart Hannesson í formannskjöri, og skýrt umboð til að leiða flokkinn. „Ég hef í raun mikla samúð með honum í stöðunni eins og hún er. Þetta hefur ekki gengið vel. En ég bíð, eins og aðrir, eftir næsta flokkstjórnarfundi og ég held að þetta snúist ekki bara um einn forystumann eða forystuna heldur líka þessa skýru pólitík. Það er líka bara eitt ár síðan að Samfylkingunni gekk býsna vel í sveitarstjórnarkosningum.“
Sá flokkstjórnarfundur fer fram í haust. Árni Páll sigraði Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmann flokksins, í formannsslag með einu atkvæði í fyrravor. Sá munur er á þeirri kosningu og því þegar Árni Páll var kosinn formaður 2013 að einungis landsfundarfulltrúar tóku þátt í henni.
Tala ekki nógu skýrt fyrir hvar flokkurinn stendur
Dagur sagðist halda að Árni Páll, og raunar allur þingflokkur Samfylkingarinnar, hefði verið að hugsa sinn gang í sumar.
Hann telur einnig að hluti af ástæðunni fyrir litlu fylgi flokksins sé að Samfylkingin hafi ekki talað nógu skýrt um hvar hún standi í meginátakamálum samtímans, sem að mati Dags eru arðurinn af auðlindinni, hvernig við skiptum tekjum og í atvinnumálunum eru átökin á milli grænnar framtíðarsýnar og grárrar. „mínum huga er alveg skýrt að Samfylkingin á að vinna að því öllum árum að arðurinn að auðlindinni fari til þjóðarinnar, tala fyrir jöfnuði og jöfnun tækifærum allra, að þetta sé velferðarsamfélag[...] og hún á að tala fyrir grænni framtíðarsýn. Fjölbreyttara atvinnulífi.“
Staðan verri en í afhroðinu 2013
Í nýjustu könnun Gallup, sem birt var fyrir fjórum dögum síðan, mældist Samfylkingineinungis með níu prósent fylgi, sem er lægsta fylgi flokksins samkvæmt mælingum síðan í maí 1998, ári áður en flokkurinn bauð fyrst fram til Alþingis.
Sögulega hefur fylgið því aldrei verið lægra. Flokkurinn fékk 26,8 prósent atkvæða þegar hann bauð fyrst fram árið 1999, 31 prósent í kosningunum 2003, 26,8 prósent árið 2007 og 29,8 prósent í alþingiskosningunum árið 2009. Eftir þær kosningar var Samfylkingin stærsti flokkur landsins og leiddi fyrstu hreinu vinstristjórnina.
Flokkurinn beið hins vegar afhroð í kosningunum í apríl 2013 og fékk einungis 12,9 prósent atkvæða. Aldrei nokkru sinni í sögu íslenskra stjórnmála hefur einn flokkur tapað jafn miklu fylgi á milli kosninga og Samfylkingin gerði á milli áranna 2009 og 2013.