Í skýrslu sem Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Sveitarfélagið Voga fyrr á þessu ári, er lagt mat á eldgosavá í sveitarfélaginu með tilliti til jarðhræringa þeirra sem urðu á Reykjanesi í fyrra. Fyrirhugað mögulegt flugvallarstæði í Hvassahrauni liggur á þeim svæðum innan Voga þar sem einna minnst hætta þykir á vá vegna eldgosa.
Skýrslan var ekki unnin sem innlegg í flugvallarmálin að neinu leyti, heldur fékk bæjarstjórn Voga Jarðvísindastofnunina til þess að vinna skýrsluna fyrir sig í tengslum við umfjöllun sveitarstjórnarinnar þar um Suðurnesjalínu 2, sem Landsnet vill leggja um sveitarfélagið í lofti, en sveitarstjórnin vill að fari í jörð. Nálgast má skýrsluna hér.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur vísaði hins vegar til þessarar skýrslu, sem kynnt var í bæjarstjórn Voga 31. ágúst, í umræðu um Reykjavíkurflugvöll sem fram fór í borgarstjórn Reykjavíkur á þriðjudag, en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks kölluðu eftir umræðunni um flugvöllinn.
„Það er allt sem bendir til þess, miðað við þessa greiningu, að Hvassahraun sé þarna á einu öruggasta svæðinu á öllum Reykjanesskaganum,“ sagði Dagur á fundi borgarstjórnar, en minnti á sama tíma á að Veðurstofan væri að vinna að sinni eigin greiningu á fýsileika flugvallarstæðisins í Hvassahrauni.
Dagur sagði að út frá greiningum Jarðvísindastofnunar væri það „algjörlega ótímabært“ að „afskrifa þann möguleika að vera með einhverja innviði á Reykjanesskaga, hvað þá Hvassahraun, sem virðist samkvæmt þeim gögnum sem við búum yfir vera ein öruggasta staðsetningin fyrir öryggi innviða á öllum skaganum.“
Skýrslan sem borgarstjóri vísaði til var sem áður segir unnin af sérfræðingum Jarðvísindastofnunar HÍ, en á meðal höfunda eru eldfjallafræðingarnir Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson.
Hvassahraunssvæðið í tveimur lægstu hættuflokkum
Í skýrslunni er lagt mat á eldsuppkomunæmi, misgengi og líkur á mögulegu hraunflæði innan Sveitarfélagsins Voga, bæði miðað við hraunrennsli í litlu gosi eins og því sem varð í Fagradalsfjalli í fyrra, með hraunrennsli upp á 10 rúmmetra á sekúndu og svo meðalstóru hraungosi á íslenska vísu, með um 300 rúmmetra hraunrennsli á sekúndu.
Höfundar skýrslunnar settu, í kjölfar greininga sinna á þessum þáttum, fram tillögur að flokkun hættusvæða innan sveitarfélagsins Voga.
Alls er svæðinu skipt upp í fimm flokka með tilliti til hættu og fellur fyrirhugað flugvallarsvæði í Hvassahrauni innan tveggja lægstu flokkana, flokka 1 og 2 (græn svæði og gul svæði). Grænu svæðin eru „ekki hættusvæði“ og svæði sem ekki eru líkur á að hraun flæði inn. Gulu svæðin eru hins vegar skilgreind sem „svæði í lágmarks hættu“ með líkur á hraunflæði „í lágmarki“ og tiltekið í skýrslunni að um sé að ræða svæði sem „getur verið byggt“.
Eins og sjá má á myndinni hér að ofan eru þó svæði sem flokkuð eru á hærra hættustigi ekki langt undan.
Gögn þurfi að ráða ákvörðunum
Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs og oddviti Framsóknar í Reykjavík sagði í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi að hver maður sæi að það hefði skapast óvissa um staðsetningu mögulegs flugvallar í Hvassahrauni vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.
„Starfshópur Veðurstofunnar vinnur núna að því að meta fýsileika þeirrar staðsetningar og á meðan sú skýrsla liggur ekki fyrir er erfitt fyrir okkur stjórnmálamennina að hafa endanlega skoðun á málinu,“ sagði Einar.
Hann bætti því við að það hefði myndast „ákveðin stemning núna í eldgosinu“ um að möguleikinn á flugvelli í Hvassahrauni væri augljóslega út af borðinu“ en að það væru þó „ýmis gögn“ sem bentu til þess, rétt eins og borgarstjóri hefði bent á, að Hvassahraun væri samt „á grænu“.
„En ég ætla ekki að úttala mig um þetta, við verðum bara að treysta sérfræðingunum um þetta,“ sagði Einar, sem sagði að ef svo færi að Hvassahraun yrði „einhvern veginn strikað út af listanum yfir vænlega flugvallarkosti“ þyrfti að halda áfram með vinnuna, rifja upp kostina sem Rögnunefndinni svokölluðu var falið að skoða eða skoða aðra möguleika.
Bessastaðanes, Hólmsheiði, Löngusker?
Hinir kostirnir sem fjallað var um í skýrslu Rögnunefndarinnar, sem var sameiginlegur stýrihópur Reykjavíkur, ríkisins og Icelandair Group, voru Bessastaðanes, Hólmsheiði og Löngusker, auk þess sem fjallað var útfærslur á flugvellinum í Vatnsmýri í breyttri mynd.
Hvassahraun var að mati stýrihópsins sá flugvallarkostur sem hafði mesta þróunarmöguleika til framtíðar, í samanburði við hina, sem þó voru allir sagðir geta rúmað þá starfsemi sem væri í Vatnsmýri.
Varðandi Hvassahraunið voru þó ýmis atriði sem Rögnunefndi taldi að skoða þyrfti betur, þar á meðal mögulegar mótvægisaðgerðir vegna sjúkraflutninga. Einnig sagði að taka þyrfti með í reikninginn nálægð fyrirhugaðs flugvallar við Keflavíkurflugvöll, með tilliti til loftrýmis, flugferla og reksturs.
Í umfjöllun um Hvassahraunið sagði í skýrslu Rögnunefndarinnar að í skýrslu sem sérfræðingar hefðu verið látnir vinna um náttúruvá á svæðinu hefði komið fram að hraun sem myndu ógna flugvallarstæði í Hvassahraunslandi myndu koma upp í Krýsuvíkurkerfinu.
„Miklar líkur eru á að aldir líði áður en Krýsuvíkurkerfið rumskar næst. Búast má við að næsta gosskeið á Reykjanesskaga hefjist í Brennisteinsfjöllum. Það gæti orðið eftir um eina öld. Hraun þaðan er ekki líklegt til að ógna flugvallarstæðinu í Hvassahrauni. Mjög litlar líkur eru á að sprungur og misgengi verði til vandræða á flugvallarstæðinu næstu aldir. Miðað við tímabil gosskeiða í þeim er langt í það næsta, jafnvel yfir 300 ár,“ sagði í skýrslu Rögnunefndarinnar, með vísan í skýrslu sérfræðinga.