Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur óskað eftir því við Ólöfu Nordal innanríkisráðherra að viðræður verði hafnar milli borgar og ríkis á grundvelli gagna og tillagna Rögnunefndarinnar. Viðræðurnar myndu taka til stofnunar undirbúningsfélags um gerð flugvallar í Hvassahrauni og það hvernig rekstraröryggi verði tryggt á Reykjavíkurflugvelli á meðan unnið sé að nýjum flugvelli.
Dagur sendi Ólöfu bréf þar sem þetta kemur fram, en hann greinir einnig frá þessu á Facebook-síðu sinni. „Jafnframt hef ég áréttað samningsbundnar skyldur ríkisins til að loka þriðju flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli í samræmi við samninga Reykjavíkurborgar og innanríkisráðuneytisins,“ segir Dagur á Facebook. Ljóst sé að Reykjavíkurborg geti skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart uppbyggingaraðilum ef borgin kalli ekki eftir efndum á þeim samningsskuldbindingum. Í bréfi hans kemur fram að ef til þess kæmi myndi borgin beina endurkröfu um það hendur ríkinu.
„Það væri í mínum huga óásættanlegt með öllu að borgarbúar þyrftu að borga einhvers konar bætur vegna vanefnda ríkisins. Ég tek fram að ég hef alla tíð gengið út frá því að ríkið virði þessa samninga, enda sú regla að samningar standi einn af hornsteinum samfélagsins. Engum er það betur ljóst en sjálfu dómsmálaráðuneytinu.“
Bréf borgarstjóra var lagt fram á borgarráðsfundi í dag auk áhættumats Isavia, sem tekur til lokunar þriðju flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli. Hverfandi líkur eru taldar á því að slys yrði þar sem mannslíf töpuðust og flugvél eyðilegðist vegna lokunar flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, samkvæmt áhættumatinu.
Áhættumatsskýrsla Isavia er staðfest af Samgögnustofu og segir í inngangi skýrslunnar að breyting sem leiði af lokun brautar 06/24 sé þolanleg. Í niðurstöðukafla áhættumatsins segir einnig að ólíklegt sé talið að alvarlegt atvik yrði þaðr sem fólk slasast og miklar skemmdir yrðu á búnaði vegna hliðarvindar. „Ólíklegt er talið að slys verði, neyðist flugmaður til að lenda við aðstæður sem væru utan marka afkastagetu flugvélar,“ segir jafnframt. Áhætta sem hlýst af af lokun brautarinnar er sögð í „flokki B“ þar sem ekki er búið að taka neinar ákvarðanir um mildunarráðstafanir, en ef til formlegrar ákvörðunar innanríkisráðuneytisins um lokun brautar 06/24 kemur verður lagt í þær. Lagðar eru fram frekari tillögur um „mildunarráðstafanir“.
Segja Isavia ekki fylgja alþjóðareglum
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sendu frá sér fréttatilkynningu vegna framlagningar áhættumatsins og bréfs borgarstjóra til innanríkisráðherra í dag. Þar kemur fram að flokkurinn telji einkennilegt að borgarstjórinn fari fram með kröfur um lokun á flugbrautinni meðan rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri sé ekki tryggt. Borgarfulltrúarnir segja borgarstjóra fara á svig við tillögur Rögnunefndarinnar með bréfi sínu, og jafnframt segja þær að við gerð áhættumats Isavia hafi ekki verið fylgt alþjóðareglum. „Telja Framsókn og flugvallarvinir að Samgöngustofa þurfi að rökstyðja hvers vegna þessum kröfum var ekki fylgt.“