Þótt tíu ár séu liðin síðan Jótlandspósturinn birti Múhameðsteikningar Kurts Westergaard deila Danir enn um hvort rétt hafi verið að birta þær. Kennarar eru ósammála um hvort rétt sé að sýna teikningarnar í kennslustundum þegar fjallað er um Múhameðskrísuna eins og Danir kalla þetta mál.
Það var fyrir hálfgerða tilviljun að Múhameðsteikningarnar urðu til. Nokkrir blaðamenn og rithöfundar voru í samkvæmi í Kaupmannahöfn sumarið 2006 og þar sagði einn þeirra frá því að sér gengi illa að fá einhvern til að myndskreyta barnabók sem hann hefði skrifað um Múhameð spámann. Þeir teiknarar sem hann hefði rætt hefðu allir færst undan og gjarna nefnt að þeir vildu ekki verða fyrir barðinu á reiðum múslímum.
Tveimur árum fyrr var hollenski leikstjórinn Theo van Gogh myrtur skömmu eftir að hann lauk gerð stuttmyndarinnar „Submission“ sem fjallar um múslímskar konur. Einn gestanna í áðurnefndu samkvæmi var fréttamaður Ritzau fréttastofunnar sem nokkrum vikum síðar skrifaði frétt sem bar yfirskriftina „Danskir listamenn hræddir við að gagnrýna Íslam“. Fréttin vakti mikla athygli og á ritstjórnarfundi Jótlandspóstsins stakk blaðamaður uppá því að danskir teiknarar yrðu beðnir að teikna mynd af Múhameð spámanni, eins og þeir sæju hann fyrir sér. Fimmtán teiknarar svöruðu, tólf þeirra sendu mynd, þrír vildu ekki taka þátt.
30. september 2005
Laugardaginn 30. september 2005 birti Jótlandspósturinn teikningarnar tólf. Þær voru mjög ólíkar að gerð en ein þeirra skar sig algjörlega úr. Hana hafði Kurt Westergaard teiknað, en hann var fastur teiknari Jótlandspóstsins á þessum tíma. Mynd hans sýndi höfuð spámannsins með sprengju í vefjarhettinum. Enginn texti fylgdi teikningunni en hún var merkt (signeruð) K W, svo ekki fór á milli mála hver höfundurinn var. Á ritstjórn Jótlandspóstsins taldi fólk sig vita að teikningarnar, og sérílagi mynd Westergaards, myndu vekja athygli. Engan grunaði hins vegar að hún myndi valda slíkum úlfaþyt sem raun varð á.
Sendiherrar vildu fund með forsætisráðherra
Samtök múslíma í Danmörku og fleiri löndum mótmæltu samdægurs harðlega birtingu teikninganna. Ellefu sendiherrar múslímalanda í Danmörku óskuðu eftir að fá að hitta Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra en ráðherrann synjaði þeirri beiðni. Samtök íslamista báðu dönsku ríkisstjórnina að bregðast við með einhverjum hætti, og biðjast afsökunar, en ekki var orðið við þeirri beiðni. Jótlandspóstinum bárust hótanir og pakistönsk ungmennasamtök lögðu fé til höfuðs Westergaard.
Danskir múslímar í herferð gegn Danmörku
Hópur danskra múslíma ferðaðist um nokkra vikna skeið í árslok 2005 um Miðausturlönd. Hópurinn hélt fyrirlestra vítt og breitt um birtingu Múhameðsteikninganna, tilgangurinn var að hvetja til mótmæla gegn Danmörku. Hópurinn heimsótti meðal annars fulltrúa Hamas samtakanna og Hezbollah samtakanna í Líbanon.
Eftir þessar heimsóknir hófust mikil mótmæli gegn Danmörku í mörgum múslímaríkjum og fjölmörg samtök og trúarleiðtogar hvöttu fólk til að sniðganga danskar vörur. Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælum gegn Danmörku þar sem hrópuð voru slagorð gegn Dönum og danski þjóðfáninn brenndur á götum úti. Víða kom til óeirða og kveikt var í danska sendiráðinu í Sýrlandi og danskri ræðisskrifstofu í Líbanon. Skemmdir voru unnar á sendiráðum og ræðisskrifstofum í Indónesíu, Afganistan og fleiri löndum. Talið er að á annað hundrað manns hafi látist í þessum mótmælum.
Dönsk fyrirtæki urðu illa úti
Samtök danskra iðnfyrirtækja lýstu yfir þungum áhyggjum vegna ástandsins og hvöttu Jótlandspóstinn til að biðjast afsökunar á birtingu myndanna. Mörg dönsk fyrirtæki urðu illa úti vegna tapaðra viðskipta, einkum í Miðausturlöndum. Mjólkurvinnslufyrirtækið Arla tapaði til dæmis rúmlega tveimur milljörðum króna (tæpum fjörutíu milljörðum íslenskum). Smám saman dró úr mótmælum og ástandið virtist vera að komast í eðlilegt horf.
Í febrúar 2008 handtók danska lögreglan þrjá menn sem höfðu skipulagt að ráða teiknarann Kurt Westergaard af dögum. Í kjölfarið birtu öll helstu dagblöð Danmerkur Múhameðsteikningarnar. Þau vildu þannig sýna fram á að ekki væri hægt að hefta tjáningarfrelsið með hótunum og tilræðum.
Ný mótmælaalda
Þessar nýju myndbirtingar urðu til þess að hrinda nýrri mótmælabylgju af stað. Fjölmennar mótmælasamkomur voru víða haldnar og danski þjóðfáninn brenndur. Ritstjóri Jótlandspóstsins neitaði að biðjast afsökunar á myndbirtingunni en sagði í yfirlýsingu að birting myndanna færi ekki í bága við dönsk lög en hún hún hefði greinilega misboðið mörgum múslímum og það bæri að afsaka. Baðst semsé ekki beint afsökunar. Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra neitaði sem fyrr að biðjast afsökunar sagðist virða tjáningarfrelsið þótt hann sjálfur myndi aldrei láta sér detta í hug að sýna eða tala um Múhameð, Jesús eða aðrar trúarlegar fyrirmyndir með þeim hætti að fólk gæti móðgast.
Þrír Danir á dauðalista Al Qaeda samtakanna
Þótt nú séu liðin tíu ár frá því að Múhameðsteikningarnar voru birtar telur danska leyniþjónustan að enn teljist „talsverð“ hryðjuverkaógn í landinu eins og atburðirnir í febrúar sl. þegar hryðjverkamaður myrti tvo menn í Kaupmannahöfn, sýni best Þótt nú um stundir sé kannski hljótt um teikningarnar séu þeir margir sem enn hugsi Dönum þegjandi þörfina. Ekki sé heldur hægt að líta framhjá því að meðal tíu efstu manna á dauðalista Al Qaeda samtakanna séu þrír Danir. Þessir þrír eru Carsten Juste sem var aðalritstjóri Jótlandspóstsins 2003 – 2008, Flemming Rose, hann var menningarritstjóri Jótlandspóstsins þegar teikningarnar voru birtar en er nú ritstjóri erlendra frétta á blaðinu. Þriðji Daninn á lista Al Qaeda er svo teiknarinn Kurt Westergaard. Þessir þrír menn njóta allir lögregluverndar.
Eru Múhameðsteikningarnar kennsluefni?
Birting Múhameðsteikninganna í Jótlandspóstinum árið 2005, og síðar í fleiri blöðum, og það sem fylgdi í kjölfarið er í dag hluti námsefnis í dönskum skólum. Engir deila um það. Hins vegar er talsvert deilt um það meðal danskra skólamanna hvort rétt sé að teikningarnar sjálfar séu hluti þess námsefnis. Þeir sem eru því hlynntir segja að teikningarnar séu jú það sem allt snerist um og það væri því beinlínis óeðlilegt að hafa þær ekki með. Auk þess geti hver sem er séð þessar teikningar á netinu.
Andstæðingar þess að hafa teikningarnar sem hluta námsefnis segja það augljóst að nemendur geti séð myndirnar en ef þær væru hluti námsefnisins væri verið að ögra ákveðnum hópi nemenda og slíkt sé óþarfi. Ekki hefur verið tekin um það ákvörðun innan Menntamálaráðueytisins danska hvort teikningarnar skuli vera hluti námsefnis eða ekki. Enn sem komið er er það í valdi hvers skóla hvernig þessum málum er háttað. Í nýlegri skoðanakönnun dagblaðsins Berlingske kom fram að 57% Dana eru hlynnt því að myndirnar séu hluti námsefnisins.
Það má bæta því hér við að Prentfrelsissamtökin dönsku gerðu árið 2009 samning við Kurt Westergaard. Samtökin fengu leyfi til að prenta 1000 plaköt með teikningu Westergaards af Múhameð sem sprengjuna í vefjarhettinum og 1000 kaffikrúsir með þessari sömu mynd. Hluti söluverðsins gekk til teiknarans. Bæði plakötin og kaffirkrúsirnar seldust upp á örfáum dögum.