Málshátturinn „orð er til alls fyrst“ á sannarlega við um þá stórframkvæmd sem danskir þingmenn ræða nú sín á milli, og þær umræður eru algjörlega óháðar pólitískum flokkslínum. Þessi framkvæmd sem dönsku þingmennirnir skeggræða yrði ekki að veruleika, fyrr en eftir í fyrsta lagi 20 ár þótt ákvörðun um hana yrði tekin á morgun. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið en þessi stórframkvæmd myndi, á verðlagi dagsins í dag, kosta 122 milljarða danskra króna, eða um það bil 2500 milljarða íslenskra króna. Þetta yrði lang stærsta og dýrasta framkvæmd sem Danir hafa nokkru sinni ráðist í, brýrnar yfir Eyrarsund og Stórabelti eru nánast smámunir í samanburðinum. Áætlaður kostnaður við hin fyrirhuguðu göng undir Femern sundið (tengja Danmörku og Þýskaland) nemur einungis þriðjungi þess sem hér er um rætt, nefnilega brú yfir Kattegat!
Tengir saman Sjáland og Jótland
Þegar danskur þingmaður sagði við umræður í danska þinginu, fyrir um það bil tíu árum síðan, að fyrir miðja þessa öld yrði búið að tengja saman Sjáland og Jótland án þess að fara um Fjón var hlegið að honum. Það gerir engin í dag. Þegar þingmaðurinn lét þessi orð falla voru rétt um sex ár síðan Stórabeltistengingin milli Sjálands og Fjóns var tekin í notkun og fáir, nema þingmaðurinn áðurnefndi, létu sér til hugar koma að þörf yrði á tengja beint saman Sjáland og Jótland. Stórabeltisbrúin, eins og tengingin er ætíð kölluð, er 17 kílómetra löng og samanstendur af tveim brúm, göngum og uppbyggðum vegi. Ljóst er að tenging milli Sjálands og Jótlands yrði miklu lengri, en hve löng hún yrði færi eftir staðsetningunni, sem ekki er enn farið að ræða.
Af hverju tenging yfir Kattegat?
122 milljarðar danskra króna eru miklir peningar og því eðlilegt að spurt sé hvers vegna verið sé að tala um svo fjárfreka framkvæmd og hvort hún sé nauðsynleg. Danskur þingmaður sem rætt var við í einu dagblaðanna hér sagði augljóst að framkvæmd sem þessi væri afar dýr en ekki þýddi að horfa eingöngu á þá hlið málsins. Ef allir hefðu alltaf gert það hefðu fá framfaraspor verið stigin í henni veröld.
Hins vegar dyldist engum að kröfurnar og þörfin fyrir betri og tryggari samgöngur ykjust sífellt og þegar um svo flókið og sérstakt verk væri að ræða þyrfti að hafa tímann fyrir sér.
Frá byggingu Eyrarsundsbrúarinnar. Smíði brúarinnar lauk 14. ágúst 1999 en vegurinn var vígður 1. júlí árið 2000.
Í rauninni er þessi Kattegatstenging aðeins hluti af miklu stærra máli. Það er nefnilega nokkuð síðan stjórnmálamenn hér í Danmörku og Svíþjóð, þeirra á meðal samgönguráðherrar landanna, fóru að tjá sig um nauðsyn þess að tengja saman með brú eða göngum þessi tvö lönd, til viðbótar Eyrarsundsbrúnni sem tekin var í notkun sumarið 2000. Sjónir stjórnmálamanna jafnt og sérfræðinga um samgöngumál beinast ætíð að Helsingjaborg og Helsingjaeyri, þar er fjarlægðin yfir sundið aðeins 5 kílómetrar. Með sífellt fullkomnari tækni er orðið bæði einfaldara og ódýrara að leggja göng (einskonar risahólk sem liggur á sjávarbotni) en að bora eins og áður var gert. Þetta tvennt, Kattegatstenging og ný Eyrarsundstenging ásamt nýjum vegi yfir Sjáland myndi gjörbreyta samgöngum milli Svíþjóðar (og Noregs) og Jótlands og þaðan áfram til Þýskalands og suður í Evrópu og einnig til Póllands. Þegar það er svo líka tekið með í reikninginn að talið er að bæði Eyrarsundsbrúin og brúin yfir Stórabelti verði fullnýttar (anni ekki meiri umferð) eftir í hæsta lagi 20 ár er augljóst að horfa þarf til nýrra lausna.
Hvað með kostnaðinn, getur Kattegatstenging orðið arðbær?
Auðvitað vaknaði þessi spurning strax þegar farið var að ræða hugmyndina. Kattegatsnefndin, hópur áhugafólks, fékk ráðgjafafyrirtækið Ernst & Young til að meta arðsemi hugsanlegrar tengingar yfir Kattegat. Niðurstaða fyrirtækisins var að þrátt fyrir mikinn kostnað myndi framkvæmdin borga sig upp á 30 árum, sem þykir stuttur tími. Þá er miðað við að greitt sé veggjald líkt og gert er á brúnum yfir Eyrarsund og Stórabelti.
Skýrsla Ernst & Young vakti mikla athygli hér í Danmörku. Kannski er hún ein helsta ástæða þess að nú segja sífellt fleiri stjórnmálamenn og umferðarsérfræðingar að það sé ekki lengur spurning hvort heldur hvenær hægt verður að ferðast með ökutæki yfir Kattegat.