Þessa fyrirsögn, reyndar með spurningamerki fyrir aftan, mátti lesa í einu dönsku dagblaðanna fyrr í vikunni. Þegar betur var að gáð kom í ljós að viðkomandi blaðamaður hafði tekið sér skáldaleyfi en eigi að síður leynist í orðum hans nokkur sannleikur. Skrif hans fjalla semsé um, bíla hersins, einkum þá brynvörðu (líkjast skriðdrekum) og marga hefur líklega rekið í rogastans við lesturinn.
Þótt ýmsa hafi kannski grunað að tækjabúnaður hersins, sér í lagi bílaflotinn væri ekki í topplagi, eins og sagt er, hafa fæstir sennilega gert sér grein fyrir að hann væri, að stærstum hluta, kominn á fornbílaaldurinn.
Eldgamalt dót
Brynvarðir bílar hersins, kallaðir PMV, eru frá sjöunda áratug síðustu aldar, skriðdrekarnir frá 1965 og flutningbílarnir frá árunum í kringum 1990. Herinn á samtals 65 PMV bíla, þeir eru nánast ónothæfir, einungis 5 eru nokkurn veginn ökufærir. Það er ekki bara aldurinn sem er ástæðan. Á bílana hefur verið sett brynvörn margfalt meiri og þyngri en áður tíðkaðist, og annar búnaður sömuleiðis, og þeir hreint ekki byggðir fyrir þennan mikla þunga. Afleiðingin er sú að í bílunum bilar allt sem bilað getur.
Í hernaði er ekki reiknað með dvöl á verkstæði en ástandið á bílaflota danska hersins er þannig að mestan hluta tímans eru bílarnir á viðgerðarverkstæðum og geta svo kannski aðeins keyrt nokkur hundruð metra áður en eitthvað annað gefur sig og þá er aftur komið til kasta viðgerðarmannanna.
Ekki er ástandið betra á skriðdrekaflota hersins. Skriðdrekarnir, Haubits M109, eru frá árinu 1965 og af 24 slíkum sem herinn ræður yfir eru aðeins 6 gangfærir, hinir 18 standa í skemmum hersins og verða ekki notaðir til annars en í varahluti. Þar að auki eru byssurnar á þessum sex drekum svo gamaldags og úr sér gegnar að þær eru nánast ónothæfar. Miðunarbúnaðurinn er ekki nákvæmari en svo að mjög ólíklegt er að kúla hæfi það sem miðað er á, getur skeikað allt að 150 metrum á lengdina og öðru eins til hliðar.
Skriðdreki af gerðinni Haubits M109. Mynd: Wikimedia Commons
Herinn á ennfremur nokkra brynvarða bíla af gerðinni Leopard. Þeir eru líka komnir til ára sinna en teljast þó nothæfir. Á heræfingu sem haldin var í Póllandi fyrir nokkru biluðu nær allir Leopard bílarnir. Flestir „venjulegir“ bílar danska hersins eru líka áratuga gamlir og þótt þeir séu nothæfir er viðhaldskostnaðurinn mikill.
Hefur orðið að treysta á aðra
Á undanförnum árum hefur talsverður fjöldi danskra hermanna verið í Írak og Afganistan. Í báðum þessum löndum hefur herinn orðið að treysta á aðstoð annarra, einkum Bandaríkjamanna og Breta. Í viðtali við Jótlandspóstinn fyrir nokkrum dögum sagði einn af yfirmönnum hersins að það væri ekki æskilegt fyrir herinn að vera svona upp á aðra kominn en í áðurnefndum tveim löndum hefði ekki verið um annað að ræða.
Stjórnmálamennirnir hafa ekki hlustað
Yfirmenn hersins eru ekki fúsir að tjá sig mikið um ástandið og enn ófúsari að benda á sökudólga. Þeir hafa sagt ríkisstjórn landsins verði að taka allar ákvarðanir um meiri háttar endurnýjun tækjabúnaðar hersins og um árabil hafi slík mál ekki haft forgang. Yfirstjórn hersins lagði í apríl til við ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt að keyptur yrði tækjabúnaður fyrir um einn milljarð króna (tuttugu milljarða íslenska) en ákvörðuninni var slegið á frest.
Carl Holst varnarmálaráðherra sagði í viðtali fyrr í vikunni að öllum sé ljóst að ástandið sé óviðunandi en gert sé ráð fyrir háum fjárveitingum til tækjakaupa hersins á næstunni. Næsta skref sé að velja búnaðinn. Ráðherrann sagði að yfirstjórn hersins væri tilbúin með ákveðnar tillögur í þeim efnum og þar sé gert ráð fyrir að ökutækjafloti hersins verði algjörlega endurnýjaður á næstu árum