"Í gær var birt yfir þvera forsíðu Fréttablaðsins lygafrétt með viðeigandi myndum um stofnun og raunar einstakling sem öll fjölmiðlasamsteypan hefur haft veiðileyfi á síðan ítök núverandi eigenda hófust þar, þótt um hríð væri logið til um eignarhaldið." Þetta skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, í Reykjavíkurbréf sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.
Fréttin sem Davíð vísar til fjallaði um fullyrðingar Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, um að bankinn hafi fengið 85 milljarða þrautavaralán hjá Seðlabankanum án þess að gengið yrði frá veðum eða lánaskjölum. Eins og kunnugt er nemur tap skattgreiðenda vegna lánveitingarinnar 35 milljörðum króna.
"Eitt símtal við viðkomandi, stofnunina eða einstaklinginn hefði tryggt að blaðið yrði ekki sér til skammar með breiðsíðu sinni," skrifar Davíð. Seðlabankinn sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem fullyrðingum Hreiðars Más var vísað á bug. "Þegar
lygi blaðsins var afhjúpuð var þó ekki beðist afsökunar. Nei, þá var fréttastofa sjónvarps sama eiganda látin seilast í gamlan texta, sem Björn Valur Gíslason, af öllum mönnum, hafði soðið saman fyrir tveimur árum til að réttlæta lygina. Rándýr fjölmiðlanefnd lætur ekki slíka misnotkun til sín taka, enda er hún sjálfsagt orðin venjuhelguð eftir hálfan annan áratug af sambærilegum trakteringum."