Það ríkti gleðileg stemmning í karphúsinu þegar kjarasamningar milli VR, Flóabandalagsins, StéttVest og LÍV annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar voru undirritaðir skömmu fyrir þrjú í dag, en þrátt fyrir að þessum mikilvæga áfanga hafi verið náð eru blikur á loft sé kastljósinu beint að hagspánum. Líklegt er að stýrivextir muni hækka á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem er í júní.
Seðlabanki Íslands spáði því að verðbólga færi á flug, vextir myndu hækka og atvinnuleysi aukast, ef laun yrðu hækkuð um ellefu prósent, en mat þess efnis var birt í síðu Peningamálum seðlabankans. Sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur seðlabankans, að hagkerfið gæti ekki staðið undir svo miklum launahækkunum. Svo einfalt væri það. Samningarnir sem nú hafa verið undirritaðir gera hins vegar ráð fyrir mun meiri hækkunum, einkum á lægstu launum, eða um ríflega 30 prósent á þriggja og hálfs árs samningstíma.
Í samtali við RÚV í kvöld sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, að nú væri teflt á tæpasta vað með þeim kjarasamningum sem nú hefðu verið undirritaðir. Ólíklegt væri að öll fyrirtæki gætu staðið undir þessum launahækkunum, einkum þau sem væru með þungan launkostnað hlutfallslega og lítið svigrúm til að takast á við kostnaðarhækkanir.
Á sjötta tímanum í dag sleit ríkið samningaviðræðum við BHM. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar og segir Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM að ekki sé líklegt að nýr fundur verði haldinn um helgina.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að lokinni undirritun, að nú þyrftu fyrirtækin að standa saman og reyna að leita leiða til þess að halda áfram að stuðla að kaupmáttaraukningu og stöðugu verðlagi.
Lægstu launataxtar hækka um 31,1 prósent eða kr. 64.208 á samningstímanum. Lágmarkstekjur verða 300 þúsund krónur á mánuði frá maí árið 2018.