Gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar hefur ekki verið veikara síðan í desember 2008, þegar krónan lækkaði ört í kjölfar efnahagskrísunnar. Verð á einum dollar samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans er í dag 139,7 krónur, nærri þrettán krónum meira en hann gerði um síðustu áramót. Veiking krónunnar gagnvart dollar nemur því um níu prósentum frá áramótum. Á sama tíma hefur krónan styrkst gagnvart evrunni, og fást því fleiri evrur fyrir krónurnar en áður. Sveiflur á gengi krónu gagnvart evru eru þó mun meiri, en Seðlabankinn hefur haft það að markmiði, leynt og ljóst, að halda því stöðugu.
Fyrir ferðamenn á leiðinni til Bandaríkjanna, eða þá sem versla vörur á netinu þar sem verð er uppgefið í dollurum, þá veldur styrking Bandaríkjadollars því að öll neysla verður dýrari í krónum talið.
Það sem helst skýrir mikla veikingu krónunnar gagnvart dollar er mikil breyting á stöðunni milli dollars og evru. Verð evru hefur fallið ört síðustu vikur og mánuði og skýrist af efnahagsástandi evruríkja og því sem mörgum þykir óljós framtíðarsýn. Í vikunni hóf Evrópski seðlabankinn síðan uppkaup á skuldabréfum evruríkja, aðgerð sem kölluð er magnbundin íhlutun eða quantitative easing. Aðgerðunum er ætlað að örva efnahag evruríkjanna.
Þessar aðgerðir hafa ýtt enn frekar undir veikingu gjaldmiðilsins og hefur evran ekki verið jafn veik gagnvart dollarnum síðan 2002. Því er spáð að innan skamms muni gildi evru og dollars vera það sama, en í dag jafngildir ein evra um 1,06 dollar. Fyrir ári síðan, í mars 2014, kostaði evran um 1,4 dollara. Áframhaldandi veiking evrunnar gagnvart dollar myndi að óbreyttu þýða áframhaldandi veiking krónunnar gagnvart dollar, sem yrði því enn dýrari í verði.
Tengt efni: