Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að það verði að koma í ljós hvort dómur sem féll í máli hælisleitanda fyrr í þessum mánuði, þar sem stjórnvöldum var óheimilt að synja um endurupptöku máls á grundvelli þess að hann hafi sjálfur tafið málið, verði fordæmisgefandi eða ekki.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þar sem Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði dómsmálaráðherra hvort hann ætli „í alvörunni að halda áfram að henda úr landi fólki sem dómstólar eru nýbúnir að segja að megi ekki henda úr landi“?
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu fyrr í þessum mánuði að stjórnvöld hafi ranglega kennt Suleiman Al Masri, palestínskum hælisleitanda, um tafir í máli sínu og var því óheimilt að synja honum um endurupptöku máls. Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður nokkurra flóttamanna sem tilheyra þessum hópi hælisleitenda, sagði dóminn fordæmisgefandi fyrir fjölmennan hóp hælisleitenda sem strandaði hér á landi á tímabili kórónuveirunnar.
Um 200 manns geta átt rétt á endurupptöku máls
Í vor var greint frá því að flóðbylgja brottvísana væri fram undan sem beindist að flóttafólki sem hafði ílengst hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins. Í fyrstu var greint frá því að um 300 manns væri að ræða, meðal annars börn, og að stærstur hluti þeirra ætti að fara til Grikklands. Síðar greindi Útlendingastofnun frá því að um 197 manns væru á lista stoðdeildar ríkislögreglustjóra sem vísa ætti úr landi á næstunni. Þeir gætu nú átt rétt á endurupptöku máls síns.
Með niðurstöðu héraðsdóms er það skýrt að hennar mati að ólöglegt er að kenna umsækjanda í þessari stöðu um tafir á máli og að íslenska ríkinu bæri að taka umsóknina fyrir.
„Nú hefur lögreglan hins vegar hafist handa við að leita þetta fólk uppi, fólkið sem á rétt á endurupptöku máls síns í kjölfar dómsins, til þess að reyna að henda því úr landi og á götuna í Grikklandi. Jafnvel þó þetta fólk bíði enn eftir niðurstöðu í máli sínu í kjölfar dómsins,“ sagði hún.
Jón sagði umræddan dóm vera til rýningar í ráðuneytinu og Útlendingastofnun og að það eigi eftir að koma í ljós hvort hann verði fordæmisgefandi fyrir önnur mál.
„Búinn að gera allt sem hægt var að ætlast til af honum“
Arndís Anna vísaði í mál hælisleitanda sem vísað var úr landi nýlega. Maðurinn fer með hlutverk í leikritinu Snákur í Borgarleikhúsinu og hefur sýningum á leikritinu nú verið frestað.
„Hann hafði verði hér í um tvö ár, var orðinn vinamargur, virkur í sjálfboðastarfi og að læra íslensku, búinn að gera allt sem hægt var að ætlast til af honum. Sá maður er einmitt einn þessara einstaklinga sem var vísað úr landi með valdi þrátt fyrir að hann bíði niðurstöðu endurupptökubeiðni sinnar og er hann nú fárveikur og lyfjalaus á götunni í Grikklandi,“ sagði Arndís Anna.
Jón sagði að velta mætti því fyrir sér hvoru væri um að kenna, „þeim sem neitaði að fara í Covid-próf til að væri hægt að framfylgja niðurstöðu á stjórnsýslustigi, á tveimur stjórnsýslustigum, um að hafna viðkomandi vernd á Íslandi og móttökulandið gerði kröfu um að það fylgdi Covid-próf“.
Arndís Anna svaraði dómsmálaráðherra og sagði að í niðurstöðu héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd lögreglu á þvinguðum Covid-prófum væri ekki með þeim hætti að hægt væri að kenna einstaklingnum um tafirnar þar sem það þótti ekki skýrt að viðkomandi hefði neitað að taka Covid-próf.
„Það er ekkert sem bendir til þess að fólk hafi yfir höfuð skilið hvað væri í gangi. Því var skipað að exa við já eða nei. Og á þessu byggðu íslensk stjórnvöld. Þetta var fellt úr gildi. Það liggur ekkert fyrir um að neinn hafi neitað því að taka Covid-próf í fyrsta lagi,“ sagði þingmaðurinn.
„Það eru brottvísanir í gangi“
Jón sagðist vona að fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga, sem hann mælti fyrir á Alþingi í gær, muni skýra stöðuna í útlendingamálum. „Það eru brottvísanir í gangi,“ sagði ráðherrann, sem vonar að breytingar á útlendingalögum muni auðvelda stjórnvöldum að svara því hverjir eiga í raun erindi til landsins.
Þetta er í fimmta sinn sem dómsmálaráðherra úr röðum Sjálfstæðisflokksins leggur fram breytingar á útlendingalögum síðan þau tóku gildi snemma árs 2017. Frumvarpið var síðast lagt fram í febrúar en náði þá ekki fram að ganga, líkt og í fyrri skiptin.
Arndís Anna benti dómsmálaráðherra á að með þeim breytingum sem hann leggur fram nú sé hann í raun og veru að fjölga málum sem þessum með því að fella úr gildi þá reglu sem hefði gert það að verkum að manninum sem vísað var úr landi nýlega, og fleiri, hefðu fengið niðurstöðu í máli sínu fyrir ári síðan.
Kemur í ljós hvort umræðan hafi eitthvað þroskast
Jón sagði hann og Arndísi Önnu greina algjörlega á um innihald frumvarpsins. „Háttvirtur þingmaður kemur reyndar úr þingflokki þar sem það hefur verið kallað ógeðisfrumvarpið ítrekað í umræðunni,“ sagði Jón. Það hafi hún hins vegar ekki gert í fyrstu umræðu um frumvarpið í gær heldur talað um hve áhrifin væru lítil af frumvarpinu en þess á milli sjái hún á því mikla vankanta.
„Þannig að mér fannst vera svolítið villuráfandi umræða sem frá Pírötum kom alveg sérstaklega í þessu máli. Við sjáum hvort hún hefur eitthvað þroskast á morgun,“ sagði dómsmálaráðherra. Umræðu um breytingar á útlendingalögum verður fram haldið í þinginu á morgun, fimmtudag.