Dómur verður kveðinn upp í Al Thani málinu í Hæstarétti í dag.
Dómur féll í málinu 12. desember 2103 og voru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, dæmdir til fangelsisvistar. Hreiðar Már í fimm og hálft ár, Sigurður í fimm ár, Magnús í þrjú og Ólafur í þrjú og hálft ár.
Hinir dæmdu áfrýjuðu allir niðurstöðunni til Hæstaréttar og fór munnlegur málflutningur fram þar seinni partinn í janúar. Þeir voru ákærðir og dæmdir fyrir markaðsmisnotkun á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti og umboðssvik.
Al Thani málið, sem er eitt umfangsmesta efnahagsbrotamál sem komið hefur á borð dómstóla hér á landi, á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani frá Katar hinn 22. september 2008 en félag hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða króna með láni frá bankanum. Al Thani er yngri bróðir emírsins í Katar en hann var persónulegur vinur Ólafs Ólafssonar þegar málið komið upp.
Voru fjórmenningarnir dæmdir fyrir markaðsmisnotkun á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti og umboðssvik samkvæmt hegningarlögum, en ákæran byggði ekki síst á því að Kaupþing hefði fjármagnað fyrrnefnd kaup og að blekkingum hefði verið beitt til þess að fela það.
Dómurinn í málinu var eins og málið allt, fordæmalaus, þegar hann var kveðinn upp. Í rökstuðningi dómsins, sem Símon Sigvaldason dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur kvað upp, segir meðal annars:
„Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, voru á þeim tíma er brotin voru framin æðstu stjórnendur stærsta viðskiptabanka á Íslandi. Ákærði, Magnús, var framkvæmdastjóri viðskiptabanka í samstæðu Kaupþings banka hf. og ákærði, Ólafur, einn stærsti einstaki hluthafi í bankanum í gegnum félög sín. Hin refsiverðu viðskipti ákærðu vörðuðu verulegum fjárhæðum. Eiga brotin sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Þá er við ákvörðun refsingar litið til þess að verulegt fjárhagslegt tjón hlaust af brotum ákærðu, sem fullframin voru á tímabilinu 18. til 23. september 2008. Eiga ákærðu sér engar málsbætur.“
Gestur Jónsson hrl. og Ragnar Hall hrl. voru dæmdir í málinu til þess að greiða eina milljón hvor í ríkissjóð fyrir að vanvirða réttinn þegar þeir sögðu sig frá málinu og mæta ekki við aðalmeðferð málsins. Þeir áfrýjuðu ákvörðuninni um réttarfarssektina til Hæstaréttar sem staðfesti hana 28. maí á þessu ári.
Hreiðar Már, Sigurður, Magnús og Ólafur hafa staðfastlega haldið fram sakleysi sínu í málinu frá því ákæra á hendur þeim í Al-Thani málinu var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.