Héraðsdómur Reykjavíkur kveður í dag upp dóm sinn í máli Sérstaks saksóknara á hendur Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, þar sem þau eru ákærð fyrir umboðssvik upp á 13,6 milljarða króna. Meint brot þeirra varða allt að sex ára fangelsi.
Sigurjón og Elín, sem bæði áttu sæti í lánanefnd Landsbankans, eru sögð hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til veitingar ábyrgða. Með því hafi þau brotið lánareglur Landsbankans. „Óhjákvæmilegt er að líta svo á að brot ákærðu hafi verið stórfelld,“ segir í ákæru embættis Sérstaks saksóknara.
Sjálfskuldarábyrgðir án nokkurra trygginga
Samkvæmt ákærunni samþykktu og undirrituðu Sigurjón og Elín sjálfskuldaábyrgðir Landsbankans á lánasamninga Kaupþings við tvö félög án utanaðkomandi tryggina, þann 4. júlí árið 2006, fyrir hönd Landsbankans. Félögin sem um ræðir voru Empennage Inc. og Zimham Corp., sem bæði voru skráð á Panama. Sjálfskuldaábyrgðirnar hljóðuðu samtals upp á 6,8 milljarða króna, en lán Kaupþings til félaganna voru tryggð með veði í Landsbankanum að nafnverði fyrir samtals 332 milljónir króna.
Þá er þeim Sigurjóni og Elínu sömuleiðis gefið að sök að hafa samþykkt og undirritað sjálfskuldarábyrgð Landsbankans á lánasamning Kaupþings, dagsettan 29. júní 2007, við félagið Empennage Inc, fyrir 6,8 milljarða króna, en umrædd ábyrgð var veitt án utanaðkomandi trygginga.
Meint brot varða allt að sex ára fangelsi
Fyrrgreinar sjálfskuldaábyrgðir voru veittar vegna lánveitinga Kaupþings til kaupa félaganna, Empannage og Zimham, á hlutabréfum í Landsbankanum. Kaupþing lýsti rúmlega tíu milljarða króna kröfu í þrotabú Landsbankans í október 2009 á grundvelli sjálskuldaábyrgða Landsbankans. Slitastjórn Landsbankans hafnaði kröfunni.
Meint brot Sigurjóns og Elínar varða 249. grein almennra hegningarlaga. Hún er svohljóðandi: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“